Farþegum Icelandair í júlímánuði þessa árs fjölgaði um 17% frá því í sama mánuði í fyrra. Farþegarnir voru 415 þúsund talsins. Það sem af er ári hefur Icelandair flutt meira en 1,7 milljónir farþega. Sætanýting Icelandair var 88,9% í síðasta mánuði. Það er betra en á sama tíma í fyrra, þegar sætanýtingin var 85,7%. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar þar sem ýmsar lykiltölur úr rekstri Icelandair Group í júlí eru teknar saman.

Farþegar Flugfélags Íslands í innanlandsflugi og Grænlandsflugi voru 33 þúsund í síðasta mánuði. Það er 3% meira en í júlí á síðasta ári. Sætanýtingin í innanlandsflugi og Grænlandsflugi var nokkru lakari en í millilandafluginu, eða 77,4%. Það er þó aukning frá því í júlí í fyrra, þegar sætanýtingin var 72,3%.

Framboðnum sætiskílómetrum í millilandaflugi fjölgaði um 14% frá því á sama tíma í fyrra, en þeim fækkaði um 5% í innanlands- og Grænlandsfluginu.

Meiri frakt og fleiri gistinætur

Fraktflutningar Icelandair Group í júlí voru, í tonnum talið, 13% meiri heldur en í sama mánuði í fyrra. Félagið flutti 27 þúsund tonn af frakt í mánuðinum.

Seldar gistinætur Icelandair Group voru 38.743 í júlímánuði. Það eru um 1.250 gistinætur á dag að jafnaði. 5% fleiri gistinætur voru seldar í júlí heldur en á sama tíma í fyrra. Herbergjanýting Icelandair Group var 90,4% í júlímánuði, en var 89,1% á sama tíma í fyrra.