Icelandair hefur samið við nýja þjónustuaðila á þremur flugvöllum á Norðurlöndum, í Osló, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn, um afgreiðslu farþega og farangurs fyrir flug félagsins. Breytingarnar eru gerðar til að bæta þjónustu og auka hagræðingu. Á undanförnum árum hefur Icelandair keypt þessa þjónustu af flugvallarþjónustu SAS flugfélagsins.

Í Kaupmannahöfn verður afgreiðsla farþega og farangurs hjá Servisair. Við þessa breytingu flyst innritun í afgreiðslubyggingu 2 (Terminal 2) í stað
3 í dag. Þessi innritunarsalur er nýuppgerður og mjög vel staðsettur með tilliti til þeirra brottfararhliða sem Icelandair notar. Innritun verður sérmerkt Icelandair. Farþegum á viðskiptafarrými býðst áfram að nýta betri stofu SAS á flugvellinum.

Í Stokkhólmi verður afgreiðsla farþega og farangurs hjá Nordic Aero.
Innritun verður í sömu byggingu og hingað til eða nr. 5. Innritun verður sérmerkt Icelandair. Farþegum á viðskiptafarrými býðst einnig að nýta sér betri stofu SAS á flugvellinum.

Í Osló verður afgreiðsla farþega og farangurs hjá Servisair. Innritun verður sérmerkt Icelandair og í sömu stöð og hingað til. Farþegar á viðskiptafarrými geta líkt og á hinum flugvöllunum áfram notað betri stofu SAS á flugvellinum.