Icelandair hefur lýst yfir áhuga á að taka þátt í einkavæðingarferli serbneska flugfélagsins JAT að því er kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. "Þegar stjórnendur JAT lýstu eftir áhugasömum kaupendum, sendum við bréf og lýstum yfir áhuga okkar til að fá að skoða pakkann. Við höfum enn ekki fengið nein viðbrögð við þeirri yfirlýsingu okkar," segir Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair Group í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

"Enn sem komið er vitum við því ekki hvert framhaldið verður," bætir hann við. JAT var eitt sinn stærsta flugfélag Suðaustur Evrópu en viðsnúningur varð á rekstri félagsins þegar átök brutust út á Balkanskaganum. Undanfarin misseri hefur blaðið snúist við í rekstri félagsins að nýju. Alls flugu 1,2 milljón farþegar með JAT á síðasta ári sem var 17% meira en árið áður.

Á sama tímabili fjölgaði flugferðum félagsins um 16%. Hagnaður JAT á síðasta ári nam alls 3,7 milljónum evra sem samsvarar til 332 milljóna íslenskra króna. Floti JAT er alls 14 þotur sem eru að meðaltali 20 ára gamlar. Til samanburðar er floti Icelandair 12 þotur og á síðasta ári flugu 1,6 milljónir manna með félaginu. "Við erum alltaf að leita að nýjum möguleikum til vaxtar og í þessu tilviki komum við auga á tækifæri sem gæti passað vel inn í okkar rekstraruppbyggingu. Við erum kunn þessu svæði en um þessar mundir erum við að ganga frá kaupum á fyrirtækinu Travel Service í Tékklandi. Við teljum þetta svæði vera áhugavert og við spáum því að þarna verði mikill uppgangur og vöxtur á komandi árum," bætir hann við.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.