Á afkomufundi Icelandair í morgun ræddi Björgólfur Jóhannsson forstjóri fyrirtækisins um væntanlegt Indlandsflug sem stefnt er að verði hafið haustið 2019 að því er Túristi greinir frá.

Meðal áfangastaða sem eru til skoðunar er Nýja-Delí, en í máli Björgólfs kom fram að flug þangað tæki tæpa 10 klukkutíma meðan flugferð til Mumbaí tæki ögn lengri tíma. Samkvæmt forstjóranum þá horfir félagið til fleiri en eins áfangastaðar í landinu þó telja megi að þessar tvær fyrrnefndu komi sterklega til greina.

Bæði væri það vegna stærðar, en einnig vegna fluglengdar, en til samanburðar tekur jafn langan tíma að fljúga á milli San Fransisco í Kaliforníu og til Mumbaí. Núna í byrjun sumar hefur Icelandair á ný flug til San Fransisco. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hyggst Wow air jafnframt kynna áform um flug til Asíu í þessum mánuði.