*

þriðjudagur, 27. október 2020
Innlent 20. apríl 2018 13:09

Icelandair skoðar kaup á flugfélagi

Loftleiðir, dótturfélag Icelandair Group, er eini aðilinn sem uppfyllti skilyrði um að kaupa 49% hlut í Azores Airlines.

Ritstjórn
Vasco Coreiro Azores, leiðtogi Sósíalistaflokksins, er forseti heimastjórnar Asóreyja, en stjórnvöld í Portúgal eiga um helmingshlut í móðurfélagi Azores Airlines.
epa

Azores Airlines, flugfélag á portúgölsku sjálfstjórnarsvæðinu Asóreyjum, sárlega vantar aukið hlutafé en Icelandair er eina félagið sem komst í gegnum mat á áhugasömum kaupendum því það hafi næga fjárhagslega burði og þekkingu.

Félagið er dótturfélag innanlandsflugfélagsins SATA Air Açores, en öfugt við móðurfélagið sem sinnir flugi innan eyjaklasans, miðast starfsemi þess við flug til og frá eyjunum. Móðurfélagið er í helmingseigu portúgalska ríkisins.

Milli Íslands og Asóreyja eru ríflega 3 þúsund kílómetrar, en eyjaklasinn er staðsettur á miðju Atlantshafinu, nokkurn veginn beint í vestur, undan ströndum suðurodda Portúgals.

Annað félagið á Atlantshafseyjum sem býðst Icelandair

Um 2.350 kílómetrar eru svo til viðbótar til Grænhöfðaeyja, sem áður var einnig undir stjórn Portúgals, en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur Icelandair tekið að sér þjónustu við TACV, ríkisflugfélagið þar. Jafnframt býðst félaginu að eignast hlut í TACV þegar það verður einkaveitt í vor. Kanaríeyjar, þangað sem sólþyrstir Íslendingar sækja oft, eru svo þarna mitt á milli, eða ríflega 1.000 kílómetrum sunnar.

Azores Airlines skuldar um 250 milljón Bandaríkjadali, eða sem nemur 25,1 milljarði íslenskra króna, og er það sagt vera nálægt því að geta ekki greitt starfsmönnum sínum laun samkvæmt vefnum One Mile At A Time. Ekki er um eiginlegt kauptilboð að ræða enn sem komið er, en það væri næsta skref í söluferlinu, en í þriðja stiginu yrðu samningaviðræður um tillögurnar að því er Aviator vefsíðan segir frá.

Frekari fréttir um möguleg kaup Loftleiða í erlendum flugfélögum: