Icelandair skorar hæst, þriðja árið í röð, þegar markaðsstjórar á Íslandi eru beðnir um að nefna 2-3 fyrirtæki sem hafa staðið sig vel í markaðsmálum á síðastliðnu ári.

Þetta kom fram á Ímark-deginum á föstudag en um að er ræða könnun sem framkvæmd er af Capacent. Sem fyrr segir eru markaðsstjórar landsins beðnir um að nefna 2-3 fyrirtæki sem staðið hafa sig vel í markaðsmálum á síðastliðnu ári.

Um 38% aðspurðra nefndu Icelandair en þetta er sem fyrr segir þriðja árið í röð sem Icelandair skorar hæst. Þá er Icelandair með rúmlega þrefalt hærra hlutfall en félagið í öðru sæti, Wow air.

Wow air hefur ekki verið með áður þannig að fyrirtækið kemur nýtt inn á listann. Toyota, Vís, VR og Geysir koma jafnframt ný inn á listann en VR er eina félagið sem kemst á topp tíu listann.

Athygli vekur að tvö flugfélög (í víðum skilningi þess orðs) og þrjú símafyrirtæki eru á listanum en aðeins einn banki, eitt tryggingafélag og eitt bílaumboð. Þá er Geysir eina verslunin á listanum.

Röð þeirra tíu fyrirtækja sem nefnd voru er þannig:

  1. Icelandair 38%
  2. Wow air 11,7%
  3. Nova 7,8%
  4. Vodafone 6,6%
  5. Síminn 6,3%
  6. Toyota 6,3%
  7. Vís 5,4%
  8. Íslandsbanki 4,8%
  9. VR 3,9%
  10. Geysir 3,6%