Icelandair Group hefur ákveðið að ekki muni verða af hugsanlegri aðkomu félagsins að rekstri flugfélagsins WOW air sem tilkynnt var um hinn 20. mars síðastliðinn og hefur viðræðum á milli aðila þar með verið slitið. Icelandair Group greinir frá þessu í tilkynningu til Kauphallar Íslands .

Indigo Partners sleit viðræðum við Wow á fimmtudaginn. Þann sama dag barst tilkynning frá Icelandair um að viðræður við forsvarsmenn Wow air væru hafnar á ný. Byggðu þær viðræður á sjónarmiði samkeppnisréttar um „fyrirtæki á fallandi fæti" og fóru fram í samráði við stjórnvöld. Áttu niðurstöður viðræðnanna að liggja fyrir strax mánudaginn 25. mars. Nú er sem sagt ljóst að upp úr þeim viðræðum hefur slitnað.

Skuldabréfaeigendur ræða við Wow

Í tilkynningu frá Wow air sem send var út rétt fyrir klukkan sjö í kvöld kom fram að Wow air eigi í viðræðum við meirihluta skuldabréfeigendanna og aðra kröfuhafa um að endurskipuleggja skuldir Wow air og breyta þeim í hlutafé til að tryggja rekstur Wow air til langframa. Eins og kom fram í Viðskiptablaðinu á fimmtudagsmorgun þá áttu þeir að svara því í síðasta lagi núna um helgina hvort þér féllust á skilmálabreytingar skuldabréfanna. Í breytingunum felst meðal annars að 50% lánsins verði afskrifað, vextir lækkaðir úr 9% í 7% og 150 milljón króna vaxtagreiðsla, sem greiða átt á morgun falli niður.