Icelandair gerir ráð fyrir rekstrarhagnaði (EBIT) upp á 42 milljónir dollara, andvirði 5,7 milljarða króna, árið 2022 og að rekstrarhagnaður samsteypunnar muni nema 78 milljónum dollara sama ár. Frá þessu er greint í fjárfestakynningu félagsins en rekstrarhagnaður Icelandair Group nam um 50 milljónum dollara árið 2017.

Áætlað er að rekstrartap Icelandair á næsta ári muni nema 75 milljónum dollara, andvirði ríflega 10 milljarða króna sem er jafn mikið og árið 2019. Áætlað er að tap Icelandair Group muni nema 330 milljónum dollara á þessu ári, sem er andvirði tæplega 45 milljarða króna en félagið tapaði 331 milljón dollurum á fyrri helmingi ársins.

Icelandair hefur fengið lánalínu að fjárhæð 16,5 milljarða króna, háð samþykki Alþingis og öflun nýs hlutafjár, og félagið hyggst sækja sér um 20 milljarða í komandi hlutafjárútboði.

Sjá einnig: Ríkisábyrgð á lánalínu samþykkt

Því er spáð að rekstrartekjur félagsins muni nær tvöfaldast milli ársins 2021 og 2022, úr 371 milljón dollara í 726. Árið eftir er því spáð að tekjur félagsins fari í 1.032 milljónir og að árið 2024 verði tekjur félagsins nálægt tekjum þess árið 2019.