Afkomutölur hinna ýmsu fyrirtækja fyrir árið 2015 eru að koma í hús þessa dagana. Góð afkoma hjá mörgum íslenskum fyrirtækjum, þar á meðal Icelandair og Marel , hefur vakið athygli.

Erfitt getur verið að setja afkomu íslenskra fyrirtækja í samhengi við erlend fyrirtæki, enda geta lítil erlend fyrirtæki hæglega verið stærri en stærstu íslensku fyrirtækin. Til að gefa einhverja tilfinningu fyrir stærð íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegum samanburði hefur Viðskiptablaðið borið saman hagnað nokkurra þekktra íslenskra og erlendra fyrirtækja.

1. Icelandair og Dunkin' Donuts


Icelandair hefur verið í miklum vexti síðustu ár. Fyrirtækið hagnaðist um 14 milljarða króna á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs.

Það er umtalsverð fjárhæð, en þó nokkru minni en hagnaður Dunkin' Brands Group Inc. á sama tímabili, sem var 14,4 milljarðar króna miðað við gengi dollarans í dag. Stærsta flugfélagi Íslands gengur því álíka vel og þekktasta kleinuhringjasala Bandaríkjanna um þessar mundir.

2. Össur og Abercrombie & Fitch


Abercrombie & Fitch hefur löngum mátt sæta gagnrýni fyrir markaðsstefnu sína, sem hefur þótt snúast um of um kynferðislegt efni og fegurðarkröfur. Þeirri stefnu var þó breytt á síðasta ári , en sala fyrirtækisins hafði þá dalað um nokkurt skeið.

Fyrirtækið Össur hefur kannski aðeins hjálplegri ímynd í hugum margra, en fyrirtækið hagnaðist um 7,6 milljarða króna árið 2014. Það er meira en Abercrombie & Fitch, sem hagnaðist aðeins um 6,6 milljarða króna.

3. Kaupfélag Skagfirðinga og Soda Stream


Soda Stream vélarnar þekkja flestir, en ísraelska fyrirtækið sem framleiðir þau var stofnað árið 1991 og hefur sala þess dalað nokkuð að undanförnu. Hagnaður fyrirtækisins var um 1,6 milljarður króna árið 2014.

Kaupfélag Skagfirðinga hagnaðist hins vegar um 2,1 milljarða á sama ári. Kaupfélagsrekstur á Íslandi virðist því vera arðbærari en að vera leiðtoginn á sviði sóda-véla á heimsvísu.

4. Íslensku bankarnir og Twitter

© european pressphoto agency (european pressphoto agency)

Þetta er reyndar nokkuð óeðlilegur samanburður þar sem Twitter tapaði háum fjárhæðum á fyrstu níu mánuðum síðasta árs á sama tíma og Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki högnuðust vel. Spurningin er því frekar hver hlutfallsleg stærðargráða afkomu þessara fyrirtækja er.

Samanlagður hagnaður Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka á fyrstu níu mánuðum síðasta árs nam 66,5 milljörðum króna. Á sama tímabili tapaði Twitter 54,5 milljörðum. Hagnaður bankanna dugar því rétt svo fyrir tapi Twitter á tímabilinu.

5. Angry Birds og Bláa lónið


Angry Birds á það sameiginlegt með Bláa lóninu að vera þekkt vörumerki á alþjóðavísu. Angry Birds, sem er framleitt af finnska leikjaframleiðandanum Rovio Entertainment, er eitt af flaggskipum finnska leikjaiðnaðarins á meðan Bláa lónið er eitt þekktasta vörumerki íslensku ferðaþjónustunnar.

Rovio hagnaðist um 1,4 milljarð króna árið 2014, en Bláa lónið um 1,8 milljarða. Ísland hefur því vinninginn í þessum samanburði, ef svo má segja.