Icelandair hefur ákveðið að auka áætlunarflug sitt á næsta ári um allt að 10% og gera stórátak í því að fjölga ferðamönnum til landsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en félagið flýgur til Íslands frá 26 borgum í Evrópu og Norður-Ameríku og mun á næsta sumri fjölga vikulegum ferðum úr 140 í alls 155 flug á viku eða 23 flug daglega á háannatímanum.

Fram kemur í tilkynningunni að félagið bætir einni Boeing 757 farþegaþotu í áætlunarflugflotann og verður með 12 þotur í rekstri næsta sumar. Með þessari aukningu mun félagið þétta áætlun sína til fjölmargra staða og bæta við tveimur áfangastöðum, Brussel í Belgíu og Þrándheimi í Noregi.

„Við ætlum einfaldlega að grípa það tækifæri sem við sjáum nú til að auka sölu Íslandsferða með arðbærum hætti,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningunni.

„Við teljum að mikil umfjöllun um landið erlendis undanfarið og lágt gengi krónunnar skapi aukna sölumöguleika á ýmsum mörkuðum. Nú er komin á sú reynsla hjá fagaðilum erlendis og almenningi að þjónusta á Íslandi er góð þó samdráttur sé í efnahagslífinu og Ísland er jafn áhugaverður staður og verið hefur - jafnvel ennþá áhugaverðari. Við teljum rétt að nýta með þessum hætti þann styrk og sveigjanleika sem felst í því að reka öflugt markaðsstarf bæði hér heima og á mörkuðum okkar erlendis, og herðum enn róðurinn ytra.“

Icelandair gerir ráð fyrir því að aukningin í framboði félagsins fjölgi ferðamönnum Icelandair til landsins um 20-25 þúsund og að þeir muni koma með sem svarar sex milljörðum króna í erlendum gjaldeyri til kaupa á vöru og þjónustu.

„Þá mun þessi viðbót skapa um 100 bein störf í flugi og flugþjónustu félagsins og auk þess má gera ráð fyrir að yfir þrjú hundruð störf verði til í almennri ferðaþjónustu um landið til að sinna þessum fjölda ferðamanna,“ segir í tilkynningunni.

Birkir Hólm segir að með þessari ákvörðun sé félagið fyrst og fremst að horfa til arðsemi Icelandair. Hins vegar sé gleðilegt að aukin sala erlendis hafi mikil áhrif á ferðaþjónustuna hér á landi.

Icelandair byggir leiðakerfi sitt á staðsetningu landsins mitt á milli Norður-Evrópu og Norður-Ameríku. Í tilkynningunni segir að með leiðakerfinu sé Icelandair unnt að þjóna þremur mörkuðum; heimamarkaðinum á Íslandi, ferðamannamarkaðinum til Íslands og alþjóðlegum flugfarþegum á leið milli Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu á Keflavíkurflugvelli.

„Sú flugtíðni sem leiðarkerfi Icelandair tryggir - þ.e. um 150 flug í viku til og frá öllum helstu borgum austan hafs og vestan er grundvöllur ferðaþjónustunnar á Íslandi,“ segir Birkir Hólm í tilkynningunni.

„Flugið skapar fjölmörg atvinnutækifæri um allt land og mikilvægi þess að halda uppi góðum samgöngum milli Íslands og annarra landa verður seint ofmetið. Við hjá Icelandair leikum þar lykilhlutverk og ætlum að gera áfram.“