Icelandair var stundvísast allra evrópskra flugfélaga sem eru í AEA, Evrópusambandi flugfélaga, í alþjóðaflugi í síðasta mánuði. Flugfélagið var stundvísast í 92,5% tilvika. Icelandair er sömuleiðis í efsta sæti í flugi á styttri og meðallöngum flugleiðum með 93,9% stundvísi. Samanlagt er stundvísin því 93,5% og er félagið númer eitt af 25 alþjóðlegum flugfélögum í þessari mælingu.

Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair, að flugfélagið er í efsta sæti í langflugi það sem af er ári með 90,7% stundvísi. Evrópusamband flugfélaga (AEA) birtir reglulega gögn um stundvísi flugfélaga innan sinna raða.

„Góð stundvísi er sem fyrr lykilatriði í þjónustu Icelandair og það er alltaf jafn ánægjulegt að fá staðfestingu á því að við stöndum framarlega á þessu sviði í samanburði við öll stærstu og þekktustu flugfélög Evrópu,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í tilkynningunni.