Icelandair hefur verið sýknað af kröfu Flugfreyjufélagsins um að því beri að greiða 10% þóknanir af mat sem er fyrirframgreiddur af farþegum.

Flugfreyjufélagið krafðist þess að viðurkennt yrði að Icelandair hefði brotið kjarasamning Icelandair og Flugfreyjufélagsins um þóknun af sölu varnings um borð í flugvélum félagsins með því að greiða ekki söluþóknun af fyrirfram pöntuðum og greiddum mat til flugfreyja sem annast sölu á viðkomandi flugi.

Flugfreyjur hafa venjulega 10% þóknun af sölu á varningi sem seldur er um borð í flugvélum Icelandair. Eftir að farþegum gafst kostur á að kaupa mat í gegnum internetið samhliða bókun á flugmiða urðu flugfreyjur því af tekjum sem þær höfðu áður vegna sölu á mat.

Ekki brot á kjarasamningi

Í júní á síðasta ári sendi flugfreyjufélagið bréf til Icelandair þar sem áréttað var að flugfélaginu bæri að greiða söluþóknun af allri sölu hvort sem varan er greidd fyrirfram eða staðgreidd og að skýrt brot á kjarasamningi væri um að ræða vegna ákvörðunar félagsins um að greiða ekki þóknun af fyrirframgreiddum mat. Icelandair ítrekaði hins vegar að fyriframgreiðsla á mat væri ekki meðtalin í samningi félaganna um þóknun flugfreyja af sölu um borð í flugvélum Icelandair.

Í niðurstöðu dómsins segir að það er „álit dómsins að hið umdeilda ákvæði kjarasamningsins um söluþóknun nái ekki til þess matar sem hefur verið pantaður og greiddur áður en flugferðin hefst, en sem flugfreyjur/flugþjónar afhenda í flugferðinni. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefndanda í málinu. Rétt er að stefndandi greiði stefnda kr. 350.000 í málskostnað og hefur þá verið litið til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.“