Afkoma Icelandair var neikvæð um 104,8 milljónir dala eða um 13 milljarða króna á síðasta ári. Tekjur flugfélagsins jukust um 35% á milli ára og námu 584,9 milljónum dala eða sem nemur 74 milljörðum króna miðað við gengi krónunnar í dag. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í tilkynningu vegna ársuppgjörs félagsins að stefnt sé að skila hagnaði á árinu í heild sem yrði í fyrsta sinn frá árinu 2017. Þá er stefnt að 3%-5% EBIT hlutfalli (rekstrarhagnaður/rekstrartekjum) á þessu ári.

Icelandair tapaði 44 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi 2021 eða um 5,5 milljörðum króna. Tekjur félagsins á fjórðungnum þrefölduðust frá sama tíma í fyrra og voru um 192,5 milljónir dala eða sem nemur 24 milljörðum króna. Flugframboð Icelandair á fjórða ársfjórðungi 2021 var um 65% af framboði sama tímabils árið 2019 en hlutfallið var um 50% á þriðja ársfjórðungi. Þá voru einingatekjur í fjórðungnum voru einungis 3% lægri en á fjórða ársfjórðungi 2019

„Opnun landamæra Bandaríkjanna fyrir evrópskum ferðamönnum í nóvember var mikilvægur áfangi en með því var opið milli allra markaðssvæða félagsins í fyrsta sinn síðan í mars 2020,“ segir í tilkynningu Icelandair. Hins vegar kemur fram að ómíkron afbrigði kórónuveirunnar hafi haft neikvæð áhrif á ferðalög í desember.

Fram kemur að eldsneytisverð á síðasta fjórðungi hafi verið að meðaltali 12% hærra en á þriðja ársfjórðungi og 91% hærra en á fjórða ársfjórðungi árið á undan.

Lausafjárstaða 56,9 milljörðum króna eða um 435 milljónum dala í árslok 2021 og eiginfjárhlutfall var 19%.

Sætanýting 70,3% á fjórða ársfjórðungi

Icelandair flutti 545 þúsund farþega í fjórða ársfjórðungi 2021, samanborið við 52 þúsund á sama tímabili árið 2020. Sætanýting í fjórða ársfjórðungi 2021 var 70,3% og jókst um 1,9 prósentustig samanborið við þriðja ársfjórðung. Stundvísi í millilandaflugi var 78%.

„Með samhentu átaki og útsjónarsemi starfsfólks náðist að halda röskunum á flugáætlun í lágmarki viðskiptavinum til hagsbóta, sérstaklega yfir hátíðirnar, en stór hluti starfsfólks lenti í sóttkví eða einangrun sem gerði mönnun mjög krefjandi.“

Tekjur af fraktstarfsemi og flutningamagn voru umfram það sem það var fyrir heimsfaraldurinn. Tekjur af leigustarfsemi jukust á milli ára og voru um 60% af tekjum ársins 2019. Á meðal leiguverkefna voru 13 flug til Suðurskautslandsins með vísindamenn og ferðafólk.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Árið 2021 var ár uppbyggingar. Eftir að hafa einbeitt okkur að því í gegnum faraldurinn að verja mikilvæga innviði og þekkingu, sem og viðhalda sterkri fjárhagsstöðu, vorum við í góðri stöðu til að bregðast hratt við vaxandi eftirspurn. Með því að nýta sveigjanleika félagsins náðum við að laga okkur að stöðunni á hverjum tíma og auka flugið úr einungis 10 brottförum á viku til fjögurra áfangastaða snemma árs í 200 brottfarir á viku til 34 áfangastaða yfir hásumartímann. Icelandair flutti 1,5 milljónir farþega í millilanda- og innanlandsflugi á árinu og jók framboð í 65% af því sem það var 2019. Þá byggðum við upp starfsmannahópinn á ný og réðum hátt í þúsund starfsmenn á árinu.

Fraktflutningar héldu áfram að ganga vel á árinu og bæði flutningsmagn og tekjur voru meiri en fyrir faraldur. Við nýttum ný tækifæri í leiguflugi sem sköpuðu mikilvægar tekjur fyrir félagið, þrátt fyrir að leiguflugstarfsemi félagsins hafi verið krefjandi á árinu. Við gripum einnig til aðgerða til að straumlínulaga og einfalda rekstur félagsins á árinu og styrkja áherslu á kjarnastarfsemi okkar enn frekar. Innanlandsflug sem áður var rekið undir merkjum Air Iceland Connect var samþætt rekstri Icelandair og þá lukum við sölu á Iceland Travel og Icelandair Hotels. Skýr markmið og stefna skilaði okkur góðum afkomubata og sterkri fjárhagsstöðu í lok árs.

Sjálfbærni er mikilvægur þáttur í stefnu félagsins þar sem við lítum til áhrifa félagsins á efnahag, samfélag og umhverfi. Það er ánægjulegt að kynna ný metnaðarfull markmið um að draga úr kolefnislosun í starfsemi félagsins. Í takt við markmið alþjóða flugiðnaðarins höfum við einsett okkur að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Til viðbótar, höfum við sett okkur markmið um að draga úr kolefnislosun um 50% á tonnkílómetra fyrir árið 2030 miðað við rekstrarárið 2019. Til að ná þessum markmiðum þarf sambland aðgerða, svo sem endurnýjun flugflota, umbætur í rekstri, innleiðingu sjálfbærs eldsneytis og kolefnisjöfnun. Innleiðing MAX vélanna inn í flota félagsins er mikilvægur þáttur í að draga úr kolefnislosun, til viðbótar við hagkvæmni vélanna og hversu vel þær henta leiðakerfinu og framtíðaráformum okkar. Við tókum við þremur nýjum MAX vélum á árinu 2021 og munum bæta fimm vélum við á þessu ári. Við verðum því með 14 MAX vélar í sumar, af þeim 30 flugvélum í flota félagsins í millilandaflugi.

Breytingar voru gerðar á skipulagi félagsins á árinu með enn skýrari áherslu á stafræna umbreytingu og á upplifun viðskiptavina. Með skýra stefnu, sterka fjárhagsstöðu og framúrskarandi starfsfólk, erum við í góðri stöðu til að grípa þau tækifæri sem framundan eru og ná meginmarkmiði okkar í kjölfar faraldursins – að koma félaginu aftur í sjálfbæran rekstur. Við stefnum að 3-5% EBIT hlutfalli og jákvæðri afkomu á árinu 2022. Ýmsir þættir geta þó haft áhrif á rekstur og afkomu ársins, eins og möguleg áframhaldandi áhrif faraldursins á eftirspurn og sveiflur í eldsneytisverði.

Ég vil þakka starfsfólki okkar fyrir eljusemi og frábær störf, hluthöfum okkar fyrir góðan stuðning og síðast en ekki síst, viðskiptavinum okkar fyrir að sýna okkur traust í gegnum erfiða tíma og hvatningu nú þegar við stígum inn í bjartari framtíð.“