Tap Icelandair á fyrsta ársfjórðungi nam 30,9 milljörðum króna. Tekjur félagsins námu 30,5 milljörðum króna og drógust saman um 16% í dölum milli ára. Þetta kemur fram í nýbirtu fjórðungsuppgjöri flugfélagsins .

Heildarmarkaðsvirði félagsins er nú rúmir 10 milljarðar, en hlutabréfaverð þess féll um fimmtung í viðskiptum dagsins og hefur fallið tæplega fimmfalt frá hápunkti ársins í byrjun febrúar, og hvert bréf kostar nú 1,9 krónur.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) nam 2,8 milljörðum í janúar og febrúar, en einskiptiskostnaður vegna kórónufaraldursins nam 23,3 milljörðum, og EBIT fjórðungsins í heild var neikvætt um 26,8 milljarða. „COVID-19 faraldurinn og yfirgripsmiklar ferðatakmarkanir höfðu veruleg áhrif á tekjur og afkomu í mars,“ segir í tilkynningu.

Eigið fé nam 27,2 milljörðum í lok fjórðungsins og eiginfjárhlutfall var 18% að Icelandair Hotels undanskildu, en söluferli hótelkeðjunnar lauk aðeins nokkrum dögum eftir lok fjórðungsins, í byrjun síðasta mánaðar.

Skuldbindingar vegna seldra ónotaða farmiða féllu um 83% frá áramótum til marsloka, og námu þá rétt tæpum 4 milljörðum króna. Fram kemur að í ljósi þeirra fordæmalausu aðstæðna sem upp séu komnar hafi umtalsverður hluti þeirra verið færður yfir á liðinn viðskiptaskuldir. Aðrar fyrirframgreiðslur féllu um 63% og námu 1,8 milljörðum.

Lausafjárstaða félagsins nam 40 milljörðum í lok mars, en í bráðabirgðauppgjöri sem birt var á föstudag kom fram að í stefndi að hún færi undir 29 milljarða lágmarksviðmið innan nokkurra vikna, og mun því ef svo fer hafa versnað um 11 milljarða á innan við tveimur mánuðum.

Í tilkynningunni er ennfremur haft eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair að afkoma hafi batnað verulega milli ára á fyrstu tveimur mánuðum ársins í takt við væntingar. Hún hafi hinsvegar verið „töluvert undir væntingum“ í mars, enda hafi faraldurinn haft „gríðarleg áhrif“ á starfsemi félagsins frá því í upphafi þess mánaðar.

Unnið sé að því að styrkja samkeppnishæfni félagsins með fjárhagslegri endurskipulagningu og hlutafjárútboði.

Fréttin hefur verið uppfærð .