Icelandair var rekið með 7,1 milljarðs króna tapi á síðasta ári miðað við 6,8 milljarða tap árið 2018. Icelandair segir að kyrrsetning MAX vélanna hafa kostað félagið 100 milljónir dollara á síðasta ári þrátt fyrir hafa fengið tjónið að hluta bætt frá Boeing í fyrra.

Rekstrartap félagsins (EBIT) var 39 milljónir dollara miðað við 57 milljónir dollara árið 2018. Afkomuspá félagsins gerir ráð fyrir 3-5% EBIT hlutfalli, en það samsvarar um 41 til 71 milljón dollara rekstrarhagnaði miðað við tekjuáætlun ársins.

Tekjur félagsins námu um 39,2 milljörðum króna (319,2 milljónum dala) á fjórða ársfjórðungi og hækka um 7% samanborið við sama tíma tímabil í fyrra. EBIT batnar um 4 milljarða króna (32,6 milljónir dala) frá fjórða ársfjórðungi 2018 og var neikvætt um 4,5 milljarða króna (36,7 milljónir dala) á fjórða ársfjórðungi 2019.

Félagið flutti 25% fleiri farþega til Íslands á árinu 2019 samanborið við 2018.

Eigið fé nam ríflega 59,3 milljörðum króna (482,5 milljónum dala) í árslok. Eiginfjárhlutfall félagsins var 29% og jókst úr 28% frá byrjun árs ef sömu reikningsskilaaðferðir eru notaðar. Án áhrifa IFRS 16, væri eiginfjárhlutfallið 36%.

Lausafjárstaða félagsins nam um 37,1 milljarði króna (301,6 milljónum dala) í lok ársins 2019. Þegar metin neikvæð nettó áhrif á EBIT vegna kyrrsetningar MAX vélanna eru um 12 milljarðar króna (100 milljónir dala).

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir uppgjör fjórða ársfjórðungs vera í samræmi við væntingar stjórnenda og afkomuspá félagsins. „Við bættum rekstur félagsins með umbótum í leiðakerfinu, bættri tekjustýringu, betri nýtingu starfsmanna og með því að bæta stundvísi félagsins sem dró úr kostnaði vegna raskana í leiðakerfinu. Árið í heild var krefjandi þar sem kyrrsetning MAX véla hafði fordæmalaus áhrif á rekstur Icelandair með töpuðum tekjum, auknum kostnaði og takmörkunum í nýtingu áhafna og flota félagsins. Með áherslu á aukna arðsemi leiðakerfisins og hagræðingu í rekstri náðist töluverður bati í undirliggjandi rekstri. Styrkur og sveigjanleiki leiðakerfisins gerði það að verkum að félagið gat aðlagað leiðakerfið hratt og örugglega að breyttum markaðsaðstæðum. Aukning á fjölda farþega til Íslands um 25% á árinu, þrátt fyrir kyrrsetningu MAX vélanna, ber þess merki. Félagið náði með þessum aðgerðum að mæta aukinni eftirspurn og tryggja sætaframboð til og frá Íslandi og styðja þannig við íslenska ferðaþjónustu. Endurfjármögnun félagsins, sem lokið var á árinu, styrkti lausafjárstöðu félagsins enn frekar. Þá var hlutafé aukið þegar nýr hluthafi, PAR Capital, kom inn í hluthafahóp Icelandair Group og er nú stærsti hluthafi félagsins. Ég tel að með skýrri stefnu, sveigjanlegu leiðakerfi, sterkri fjárhagsstöðu og framúrskarandi starfsfólki, munum við ná markmiðum okkar um bætta arðsemi félagsins á árinu 2020 og styrkja þannig undirstöður félagsins enn frekar fyrir sjálfbæran og arðbæran vöxt til framtíðar,“ er haft eftir Boga í afkomutilkynningu.