*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 7. febrúar 2020 10:33

Töpuðu milljarði á Grænhöfðaeyjum

Langtímafjármagn þarf inn í fjárfestingu Icelandair, Björgólfs Jóhannssonar og fleiri í flugfélagi Grænhöfðaeyja.

Ritstjórn
Leiguflugfélag Icelandair, Loftleiðir, leigir vélar til flugfélagsis Capo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum sem Icelandair keypti jafnframt 36% hlut í á síðasta ári.

Flugfélagið Cabo Verde Airlines sem Icelandair á 36% hlut vinnur að langtímafjármögnun. Afkoma félagsins á fjórða ársfjórðungi var undir væntingum samkvæmt uppgjöri Icelandair sem birt var í gær. Icelandair færði niður eignarhlut sinn að fullu í flugfélaginu á síðasta ári.

Icelandair ásamt hópi fjárfesta, sem innihélt meðal annars Björgólf Jóhannsson fyrrum forstjóra Icelandair, keyptu 51% hlut í flugfélaginu í mars. Eignarhlutur hópsins, upp á 7,6 milljónum dollara eða milljarð króna hefur verið færður niður að fullu. Hlutur Icelandair í þeirri niðurfærslu nemur 5,3 milljónum dollara, eða um 700 milljónum króna.

Ef ekki tekst að tryggja fjármögnun gætu áætlanir Icelandair breyst og félagið misst tímabundið leigusamninga á vélum leiguflugfélags þess, Loftleiða, til CVA. Það gæti haft tímabundin áhrif á Loftleiðir meðan nýir leigjendur eru fundnir.

Ríkisstjórn eyjanna heldur 49% eignarhlut, fjárfestahópurinn keypti 51%. Sagt var frá því sem kallað var misskilningur um launagreiðslur í félaginu í ársbyrjun, en þá hafði ekki verið greidd út laun fyrir jólafrí fyrir desembermánuð eins og hefð er fyrir á eyjunum.

Í ársreikningnum segir að félagið hefði keypt 36% eignarhlutinn 1. mars á síðasta ári, og félagið líti á fjárfestinguna sem langtímaverkefni í að gera eyjarnar að sams konar miðstöð fyrir yfirflug yfir hafið eins og Ísland, sem tengt geti Afríku, Suður og Norður Ameríku og Evrópu sunnanverða. Samhliða verði eyjarnar byggðar upp sem áfangastaður ferðamanna.

Félagið hefur vænst þess að tap verði af fjárfestingunni fyrstu tvö árin, en að það verði komið í hagnað á næsta ári, 2021. Afkoman af fjórða ársfjórðungi síðasta árs var þó undir væntingum eins og áður segir og er sagt að ef ekki takist að finna langtímafjárfestingu geti það haft slæm áhrif á rekstur flugfélags Grænhöfðaeyja.

Hér má lesa frekari fréttir um fjárfestingar Icelandair í öðrum flugfélögum á Atlantshafseyjum: