Flugfélagið Icelandair Group tapaði 17 milljón Bandaríkjadölum eða tveimur milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2016. Þetta kemur fram í ársfjórðungsreikningi fyrirtækisins sem birtur var í dag.

EBITDA félagsins var jákvæð um 1,1 milljón dala sem nema um það bil 136 milljónum króna. Það er mikil breyting milli ára, þar eð EBITDA Icelandair var neikvæð árið á undan, um rúmar 285 milljónir króna.

Farþegar í millilandaflugi voru 21% fleiri en árið á undan. Heildartekjur Icelandair numu 148,9 milljónum dala eða 18,4 milljörðum íslenskra króna.

Eignir félagsins voru 142,8 milljarðar króna samtals. Þar af nam eigið fé Icelandair þá 52,2 milljörðum króna og skuldir félagsins 90,6 milljörðum króna. Það gefur eiginfjárhlutfall upp á 37%.

Í fréttatilkynningu sem fylgdi reikningnum er það haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra félagsins, að fyrsti fjórðungur félagsins sé yfirleitt þungur í rekstri. Mikill kostnaður sem tengist háannaumfangi sé þá gjaldfærður á tímabilinu.