Tap Icelandair á fyrsta ársfjórðungi jókst á milli ára og nam 34,5 milljónum dala eða sem nemur 3,5 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við tæplega 29,8 milljónir dala (3 milljarða króna) tap í fyrra. Árið 2016 nam tap félagins 7,8 milljón dölum.

EBIDTA félagsins var neikvæð um 18 milljónir dala samanborið 10 milljónir dala á sama tímabili í fyrra. Árið 2016 var EBIDTA félagsins jákvæð um 1,8 milljón dala. Félagið segir þó í tilkynningu að niðurstaðan sé í takt við áætlanir og að EBIDTA spá félagsins fyrir árið sé óbreytt í 170-190 milljónum dala.

Ef litið er á björtu hliðarnar jukust heildartekjur um 21% á milli ára og félagið stendur nokkuð sterkt með 35% eiginfjárhlutfall og 205,8 milljónir dala í handbæru fé og skammtímaverðbréfum. Handbært fé hefur þó dregist nokkuð saman síðan fyrir ári síðan þegar það nam 300 milljónum dala.

Handbært fé frá rekstri hefur að sama skapi nær helmingast en það nam rúmlega 125 milljónum dala í fyrra samanborið við 67 milljónir í lok fyrsta ársfjórðungs. Félagið fjárfesti jafnframt töluvert meira á tímabilinu en fjárfestingarhreyfingar í rekstrareignum rúmlega þrefölduðust á milli ára á fyrsta árfjórðungi.

Heildareignir Icelandair nema nú rúmlega einum milljarði dala en félagið hefur fengið fyrstu þrjár af sextán nýju Boeing 737 MAX vélunum afhentar.

Icelandair áætlar að farþegar félagsins verði 4,4 milljónir talsins á árinu 2018 og muni fjölga um 350 þúsund frá fyrra ári. Hins vegar varð töluverð breyting á samsetningu tekna af farþegaflugi á fyrsta ársfjórðungi 2018 samanborið við árið á undan. Hlutdeild tekna frá íslenskum ríkisborgurum jókst þannig úr 27% árið 2017 í 38% árið 2018. Hlutdeild erlendra ríkisborgara lækkaði þannig á móti úr 73% í 66%.

Þannig jókst fjöldi ferða sem hefjast með flugi frá Íslandi um 18% á milli ára en fjöldi farþega til Íslands dróst saman um 8%. Þá jókst fjöldi þeirra sem fara um Keflavíkurflugvöll um 3%.