Icelandair tekur nú þátt í umfangsmikilli kynningarherferð sem ferðamálaráð Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar standa sameiginlega að í Bandaríkjunum um þessar mundir.

Ferðamálastofurnar þrjár, sem heita VisitDenmark, Innovation Norway og VisitSweden hafa tekið höndum saman og kynna löndin þrjú sameiginlega sem áfangastaða ferðamanna með beinum auglýsingum á götum úti og á vefnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair en fram kemur að frá því í lok september hafa verið birtar auglýsingaherferðir utanhúss, t.d. á strætóskýlum og vegaskiltum í þremur borgum, New York, Boston og Seattle.

Í síðustu viku hófst síðan herferð á vefnum með þátttöku margra af þekktustu einstaklingum frá Norðurlöndunum þremur í Bandaríkjunum. Norski hiphop dúettin Madcon, stjörnuleikmaðurinn í ameríska fótboltanum, Morten Anderson frá Danmörku og sænska hokkístjarnan Henrik Lundqvist og margir fleiri segja þar frá uppáhaldsstöðum sínum heima fyrir.

„Icelandair er kallað til þessa samstarfs m.a. vegna þekkingar okkar og reynslu á bandarískum ferðamarkaði og vegna þess að enginn býður upp á jafn mikið flug og góðar tengingar milli Bandaríkjanna og þessara þriggja landa og við,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningunni.