Icelandair hefur ákveðið að setja af stað flugnámsbraut í samstarfi við Flugakademíu Keilis, Flugskóla Íslands og erlendra flugskóla, til þess að styðja áframhaldandi vöxt félagsins og tryggja félaginu hæft starfsfólk til framtíðar. Icelandair mun aðstoða nemendur við fjármögnun námsins, og þeir nemendur sem standast kröfur Icelandair munu njóta forgangs til starfa hjá félaginu að námi loknu segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Námið verður öllum opið og þess er ekki krafist að umsækjendur hafi hafið flugnám. Þeim einstaklingum sem þegar eru í flugnámi mun einnig gefast tækifæri á að taka þátt í þessari námsleið. Gert er ráð fyrir að fyrstu nemendur hefji námið strax í vetur og gætu hafið störf sem flugmenn árið 2019.

„Þessi leið við nám og þjálfun nýrra flugmanna er þekkt meðal alþjóðlegra flugfélaga og við veljum hana til þess að tryggja áframhaldandi vaxtarmöguleika Icelandair“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

„Hér er um að ræða nýja leið að flugmannsstarfi, viðbótarleið við þá kosti sem fyrir eru og hafa gefist vel, sem miðar að því stækka þann hóp sem vill leggja flugið fyrir sig. Flugið er sífellt mikilvægari stoð í íslensku efnahagslífi og með því að styrkja innviði fluggeirans með þessum hætti bætum við möguleika Íslands á því sviði til framtíðar.“

Námsbrautin verður kynnt nánar á opnum kynningarfundi í Þjálfunarsetri Icelandair á Flugvöllum í Hafnarfirði kl. 17:00, miðvikudaginn 27. sebtember næstkomandi. Skráning á fundinn er á icelandair.is/flugmenn-til-framtidar.