Icelandair hefur gert samning um langtímaleigu við BOC Aviation (BOCA) vegna tveggja nýrra Boeing 737 MAX 8 flugvéla. Flugfélagið gerir ráð fyrir að vélarnar verði afhentar frá Boeing haustið 2023. Með þessari viðbót verður félagið með 20 Boeing 737 MAX-vélar í rekstri.

Fyrir tveimur vikum undirritaði Icelandair viljayfirlýsingu um kaup á fjórum MAX vélum sem gert er ráð fyrir að verða afhentar haustið 2022. Þá gerði félagið einnig samning um langtímaleigu um tvær MAX 8 vélar í janúar. Flugfélagið hefur því gert samninga í ár um að bæta átta MAX vélum við flota sinn.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Það er ánægjulegt að tilkynna um nýjan samning við BOCA sem við höfum átt í löngu viðskiptasambandi við. Við höfum nú tryggt okkur nýjar vélar á hagkvæmum kjörum sem gerir okkur kleift að stækka Boeing 737 MAX flota okkar og um leið styðja við framtíðarvöxt félagsins. MAX vélarnar eru sparneytnari en fyrri vélar og því einnig mikilvægur þáttur í að draga úr kolefnislosun í flugrekstrinum.“