*

fimmtudagur, 17. júní 2021
Innlent 16. mars 2021 13:51

Icelandair upp um ríflega 9%

Fólk utan EES sem hefur verið bólusett eða þegar smitast af COVID-19 getur komið hingað til lands án þess að fara í sóttkví og skimanir.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Gengi hlutabréfa Icelandair hefur hækkað um rúmlega 9% er þetta er skrifað. Reikna má með að fréttir sem bárust um að vottorð um bólusetningu gegn COVID-19 og vottorð um fyrri covid sýkingu verði tekin gild á landamærum Íslands, hvort sem þau eru upprunnin innan EES svæðisins eða utan þess, að því tilskyldu að þau uppfylli sömu kröfur og leiðbeiningar sóttvarnarlæknis, hafi haft jákvæð áhrif á gengi hlutabréfa flugfélagsins. 

Einstaklingar sem framvísa slíkum vottorðum þurfa því hvorki að fara í sýnatöku eða sóttkví né framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf á landamærunum. Þar með opnast gluggi fyrir auknar flugferðir frá Bretlandi og Bandaríkjunum til Íslands, en ferðamenn frá umræddum þjóðum hafa verið hvað duglegastir að heimsækja Ísland. Má því ætla að þessi aðgerð gæti dregið ferðamenn frá þessum löndum sem hafa verið bólusettir eða þegar smitast af veirunni til Íslands.

Hefur gengi bréfa Icelandair hækkað um 9,36% er þetta er skrifað í samtals 138 milljóna króna veltu. Fyrir vikið hefur gengi hlutabréfa flugfélagsins hækkað úr 1,34 upp í 1,46.