Icelandair hlaut í gær verðlaun þýsku ferðaþjónustunnar „Gullpálmann“ fyrir árið 2016. Verðlaunin, sem eru stundum kölluð „óskarsverðlaun þýskrar ferðaþjónustu,“ hafa verið veitt síðustu 20 árin á stærstu ferðakaupstefnu veraldar, ITB sem nú stendur yfir í Berlín. Þau eru veitt í 6 mismunandi flokkum, m.a. ferðaskrifstofum og áfangastöðum sem dómnefndin telur að hafi skarað fram úr á árinu. Icelandair er eina flugfélagið sem verðlaunað var að þessu sinni. Verðlaunin hlýtur Icelandair sem „frumlegasta og hugmyndaríkasta flugfélag ársins“ í Evrópu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

„Í niðurstöðu dómnefndar segir að Icelandair hafi sýnt skemmtilega hugkvæmni og aðdáunarvert frumkvæði með því að virkja starfsfólk flugfélagsins til að gera svokölluðum „stop-over-farþegum“, sem gera stuttan stans á Íslandi á leið sinni milli Evrópu og Norður-Ameríku, Íslandsdvölina eftirminnilega. Það hafi verið einróma álit þeirra sem nutu þessarar svokölluðu „Stop-over-buddy“-þjónustu, þar sem starfsmenn kynntu farþegum flugfélagsins „sitt“ Ísland, að þetta hafi verið sannkallað ævintýri fyrir hina erlendu gesti,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

„Það er ótvírætt mikill heiður fyrir Icelandair að hljóta þessi „óskarsverðlaun“ þýskrar ferðaþjónustu, ekki síst þegar haft er í huga að í dómnefndinni sitja nokkrir reyndustu og áhrifamestu ferðamálafrömuðir Þýskalands“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.