Hagnaður Icelandair Group eftir skatta nam 103,1 milljón Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi og jókst um 17,3 milljónir dala frá fyrra ári. EITDA nam 150,9 milljónum dala samanborið við 123,9 milljónir dala á þriðja fjórðungi 2014 og EBITDA hlutfall var 35,1% í ár samanborið við 29,6% á sama tímabili árið áður. Heildartekjur jukust um 3%, en á föstu gengi var aukningin um 13%.

Eiginfjárhlutfall var 46% í lok september og í tilkynningu var greint frá því að EBITDA-spá fyrir árið 2015 hefði verið hækkuð um 210-215 millj­ónir dala. Við útgáfu árshlutareikningsins sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, að hækkun spárinnar skýrist af góðri afkomu félagsins á þriðja ársfjórðungi. „Einkum vegna hærri farþegatekna og lægri eldsneytiskostnaðar, auk þess sem viðhaldskostnaður var lægri en áætlað hafði verið. Þá hafa afkomuhorfur fyrir fjórða ársfjórðung styrkst, aðallega vegna sterkari bókunarstöðu í millilandaflugi auk þess sem ytri þættir hafa þróast hagfellt fyrir félagið frá síðasta uppgjöri.“ Bætti hann því við að samkeppnin á markaðnum hefði aldrei verið meiri og ljóst að hún myndi enn aukast á komandi misserum, bæði til og frá Íslandi og yfir hafið.

Nánar er fjallað um málið í Úr kauphöllinni, fylgirit Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .