Þrátt fyrir miklar efnahagsþrengingar um heim allan hefur sala á Icelandic Glacial vatninu, sem framleitt er af Icelandic Water Holdings, aukist mikið frá því ný verksmiðja félagsins var tekin í gagnið fyrir um ári síðan.

Icelandic Glacial jók verulega hlutdeild sína í sölu lúxusvatns á Bandaríkjamarkaði á árinu, samkvæmt tölum frá bandaríska fyrirtækinu Information Resources, Inc (IRI).

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandic Glacial en þar kemur fram að sala á vatninu hefur aukist um 78% í Bandaríkjunum í smásölu á milli ára.

„Vatnið hefur fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir gæði og markaðssetningu og var Icelandic Glacial fyrsta vatnið á heimsmarkaði sem hlaut CarbonNeutral vottun bæði fyrir vöruna og framleiðsluferlið,“ segir í tilkynningunni.

„Íslenskur almenningur og fyrirtæki hafa búið við erfiðar aðstæður undanfarið ár í kjölfar fjármálakreppunnar,” segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður og annar af stofendum Icelandic Water Holdings í tilkynningunni.

„Eins og önnur lítil og millistór fyrirtæki höfum við fundið fyrir keppunni. Við höfum hins vegar gert breytingar á okkar rekstri með tilliti til þess án þess þó að fórna ímynd okkar eða gæðum vatnsins og haldið áfram að sækja.”