Icelandic Glacial verður opinber styrktaraðili National Brain Tumor Society í Bandaríkjunum. Hluti ágóða af sölu Icelandic Glacial í Bandaríkjunum mun renna til samtakanna og hefst samstarfið í janúar 2015. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Samtökin sem stofnuð voru á níunda áratugnum, vinna við að efla þekkingu og rannsóknir á heilakrabbameini í Bandaríkjunum. Þau beita sér einnig fyrir greiningu og meðferð og vinna náið með stjórnvöldum, stofnunum, félagsamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum í baráttunni gegn heilakrabbameini.

„Það er von okkar að framlagið komi starfsemi samtakanna til góða og því mikilvæga málefni sem samtökin leiða í þágu okkar allra,“ sagði Jón Ólafsson, stjórnarformaður og stofnandi Icelandic Water Holdings hf. „Það er mikill heiður fyrir okkur að styrkja þessi samtök og við hlökkum til að byggja upp gott og langvarandi samstarf.“

„Við hlökkum til að vinna með Icelandic Glacial sem þekkt er fyrir einstakan tærleika og sjálfbærni. Framlag fyrirtækisins mun styrkja starfsemi okkar og veita þeim von sem herja baráttu við sjúkdóminn,“ sagði Kevin Courtney, framkvæmdastjóri þróunarsviðs samtakanna.