BevNET, sem er áhrifamikið fjölmiðlafyrirtæki á bandarískum drykkjarvörumarkaði, hefur valið Icelandic Glacial sem “Besta vatnið 2007”. Þetta var tilkynnt í gær á vefsíðu BevNet.

Í rökstuðningi BevNET fyrir valinu á Icelandic Glacial lindarvatninu segir að einstaklega hreinn uppruni vatnsins úr Ölfusbrunni hafi skipt þar miklu máli, svo og áætlun framleiðandans um ráðstafanir til kolefnisjöfnunar. Í því felst m.a. notkun vistvænna orkugjafa, endurvinnsla og kolefnisbinding. Auk vatnsgæða og umhverfisvitundar horfðu sérfræðingar BevNET til nýjunga og hönnunar þegar þeir völdu vatn ársins úr miklum fjölda tegunda.

“Icelandic Glacial hefur náð góðum árangri í því að staðsetja sig réttu megin í þeirri umhverfisumræðu sem nú fer fram um framleiðslu og dreifingu á drykkjarvatni,” segir Jeffrey Klineman, ritstjóri BevNET.

“Það eru hundruð vatnsframleiðenda sem keppa á þessum markaði, þannig að það er einstakur heiður og viðurkenning fyrir áherslu okkar á gæðaframleiðslu og umhverfisvernd að fá þessi verðlaun,” segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður og stofnandi Icelandic Water Holdings, sem framleiðir Icelandic Glacial.

Frá því að Icelandic Glacial lindarvatn kom á markaðinn austan hafs og vestan árið 2005 hefur framleiðslan hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga. Í september síðastliðnum hlaut Icelandic Glacial fyrstu verðlaun fyrir bestu umhverfisáætlunina á BottledWaterWorld, árlegri ráðstefnu vatnsframleiðenda. Árið 2005 fékk hönnun umbúðanna verðlaun á þessari sömu ráðstefnu. Icelandic Glacial hlaut í júní síðastliðnum vottun frá CarbonNeutral samtökunum í Bretlandi fyrir áætlun um ráðstafanir til kolefnisjöfnunar.

Til skamms tíma hefur framboð á Icelandic Glacial í Bandaríkjunum takmarkast við örfá markaðssvæði, á meðan unnið er að uppbyggingu átöppunarverksmiðju í Þorlákshöfn. Áformað er að hún taki til starfa í sumar og þá mun dreifing Icelandic Glacial hefjast á landsvísu í Bandaríkjunum. Stórfyrirtækið Anheuser-Busch, sem annast dreifingu Icelandic Glaical, keypti fimmtungs hlut í Icelandic Water Holdings síðastliðið sumar.

IceGlasier