Icelandic Water Holdings ehf, framleiðendur Icelandic Glacial vatnsins, og dreifingarfyrirtækið Flatt Cola East frá Hvíta-Rússlandi hafa gert með sér samning um dreifingu á Icelandic Glacial vatninu í Hvíta-Rússlandi. Flatt Cola East mun sjá um að dreifa Icelandic Glacial um land allt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Iceland Glacial.

Jón Ólafsson, stjórnarformaður og stofnandi Icelandic Water Holdings ehf, segir mikla ánægju fylgja því að tilkynna Flatt Cole East sem nýjan dreifingaraðila í Hvíta-Rússlandi. Hann segir Flatt Cola East hafa mikla þekkingu og reynslu á dreifingu óáfengra drykkjavara og segist stoltur að geta boðið upp á Icelandic Glacial í Hvíta-Rússlandi.

Icelandic Glacial hefur hlotið viðurkenningar fyrir  umhverfisvæna framleiðsluhætti. Vatninu er tappað á flöskur úr lind fyrirtækisins í landi Hlíðarenda í Ölfusi og þaðan dreift víða um heim.

Icelandic Glacial, er selt á 16 mörkuðum víða um heiminn. Auk Hvíta-Rússlands er Icelandic Glacial til sölu í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Belgíu, Luxemborg, Rússlandi, Kalíníngrad, Úkraínu, Tælandi, Suður-Kóreu, Singapore, Perú og á Íslandi. Jafnframt notar franska snyrti- og tískuvörufyrirtækið Christian Dior vatnið við framleiðslu á Dior Snow. Fyrirtækið var stofnað árið 2004 og eru Jón Ólafsson og Kristján Ólafsson stærstu hluthafar Icelandic Water Holdings ehf. ásamt bandaríska drykkjavöruframleiðandanum Anheuser Busch.