"Það verður stefnt  að sölu Icelandic Group eins og fljótt að auðið er. Þó er í raun alls óvíst hversu lengi félagið verður í umsjón Vestia þar sem að horfa verður til þess að hámarka virði fyrirtækisins," segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans. Bankinn hefur leyst til sín allt hlutafé sjávarútvegsfyrirtækisins Icelandic Group. Það hefur lengi glímt við mikla fjárhagserfiðleika. Á næstunni verður rekstur fyrirtækisins endurskipulagður með það fyrir augum að gera hann lífvænlegan til framtíðar.

Fyrir hrun hafði Landsbankinn í raun haldið fyrirtækinu, sem var í meirihlutaeigu Björgólfs Guðmundssonar, stærsta eiganda Landsbankans, lifandi um nokkurt skeið þar sem það var með skuldir umfram eignir. Fyrirtækið er öðru fremur sölu- og markaðsfyrirtæki með sjávarafurðir og selur fisk á erlenda markaði.

Landsbankinn hefur nú haslað sér völl á ýmsum sviðum íslensks atvinnulífs. Bankinn á einnig Húsasmiðjuna, Teymi móðurfélag Vodafone, Parlogis, meira en 70% hlut í Plastprent, fjórðungshlut í Stoðum, sem meðal annars á tryggingarfélagið TM, og 36% hlut í Öskju.