Magnús Orri Schram, varaformaður viðskiptanefndar Alþingis, sagði í fréttum Sjónvarpsins að svo virðist sem menn hafi ekki getað boðið í sjávarútvegsfyrirtækið Icelandic Group á samkeppnisgrundvelli. Framtakssjóður Íslands gerði samkomulag um einkaviðræður við fjárfestingasjóðinn Triton um sölu á erlendri starfsemi Icelandic. Aðrir áhugasamir kaupendur hafa ekki fengið sæti við samningaborðið.

„Leikreglurnar verða að vera skýrar, þannig að menn geti boðið í fyrirtækin á samkeppnisgrunvelli. Menn eiga ekki stökkva til um leið og það kemur símtal frá útlöndum og fara af stað í söluferli án þess að hafa lagt fyrir sig hvaða forsendur eiga að liggja að baki sölunni," sagði Magnús Orri í viðtali við Sjónvarpið í kvöld.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem komu fram á fundi viðskiptanefndar á föstudag þá er svo ekki. Svo virðist sem menn hafi bara brugðist við, fengið inn símtal um gott tilboð í Icelandic Group, þetta eitt stærsta fyrirtæki íslands, og farið af stað í söluferli án þess í raun og veru að vera tilbúnir með fyrirtækið; þeir eru ekki fullkomlega búnir að endurskipuleggja það," sagði Magnús Orri.

Ágúst Einarsson
Ágúst Einarsson
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Ágúst Einarsson, stjórnarformaður Framtakssjóðinn, hefur sagt að  fyrirtækin sem sjóðurinn ráði yfir verði seld í eins opnum söluferlum og frekast sé unnt.