Icelandic Group og Alfesca eru á lokastigum viðræðna um kaup Icelandic á frystiverksmiðju í Wimille í Frakklandi sem er í eigu Delpierre dótturfélags Alfesca að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Um er að ræða kaup á viðskiptasamböndum, verksmiðjuhúsi og ? tækjum auk veltufjármuna. Tilgangur Icelandic Group með kaupunum er að ná fram aukinni hagræðingu í framleiðslu á frystum afurðum fyrir markaði í Evrópu og á kældum og ferskum réttum í Bretlandi.

Verksmiðjan í Wimille var byggð árið 1995 og endurbætt árið 2002. Velta var um 50 milljónir Evra á síðastliðnu rekstrarári og framleidd voru um 17.000 tonn af afurðum. Afurðir verksmiðjunnar hafa aðallega verið seldar á Frakklandsmarkaði.

Gert er ráð fyrir að endanlegar samningar verði undirritaðir á næstu vikum og verður þá nánar greint frá áhrifum kaupanna á rekstur og efnahag Icelandic.


Finnbogi Baldvinsson, framkvæmdastjóri Icelandic Europe segir í tilkynningunni: "Við sjáum mikla hagræðingarmöguleika í framleiðslu frystra afurða hjá okkur með kaupunum. Reynsla Pickenpack sýnir að til að ná ásættanlegum rekstrarárangri í framleiðslu á frystum afurðum fyrir neytendamarkað þarf verulegt magn og stórar framleiðslulotur. Í Bretlandi höfum við framleitt um 16.000 tonn af frystum afurðum árlega og hjá Delpierre í Frakklandi hefur framleiðslan verið um 17.000 tonn árlega og um 70.000 tonn eru framleidd hjá Pickenpack. Það er okkar mat kaupin skapi okkur tækifæri til að bæta nýtingu á afkastagetu, stækka framleiðslulotur og auka sérhæfingu sem mun skila sér í betri rekstrarárangri. Eftir kaupin er árleg framleiðsla Icelandic í Evrópu á frystum afurðum ríflega 100.000 tonn. Kaupin munu einnig styrkja hráefnisöflun og markaðs- og sölustarf Icelandic. Fyrirsjáanleg er enn frekari samþjöppun fyrirtækja í þessum geira og ætlar Icelandic að gegna lykilhlutverki þar."