Meðal tillagna stjórnar Icelandic Group hf. [ IG ] fyrir aðalfund félagsins er að leggja það til að hluthafar veiti stjórn félagsins heimild til að óska eftir afskráningu hlutabréfa félagsins úr kauphöll Nasdaq OMX á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

„Icelandic Group hf. hefur að mati stjórnar félagsins undanfarin ár ekki náð að nýta sér kosti þess að vera skráð félag. Þannig hafa fá viðskipti verið með bréf félagsins, verðmyndun óskilvirk, auk þess sem dreifing hlutafjár er lítil og undir viðmiðum kauphallar Nasdaq OMX á Íslandi,“ stendur í tilkynningunni.

Þar stendur jafnframt: „Unnið hefur verið að fjárhagslegri endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri Icelandic Group hf. um nokkurt skeið og verður svo áfram. Útgáfa skuldabréfs með breytirétti er liður í þessari fjárhagslegu endurskipulagningu og mun hún gera félaginu kleift að vinna að sínum markmiðum. Í ljósi þess að skráning í kauphöll getur verið íþyngjandi, m.a. vegna upplýsingaskyldu sem getur skekkt stöðu gagnvart óskráðum samkeppnisaðilum og að Icelandic Group hf. er ekki sem skyldi að njóta góðs af kostum skráningar, telur stjórn félagsins að hér sé um skynsamlega ráðstöfun að ræða sem sé félaginu og hluthöfum þess til hagsbóta.“

Stjórn Icelandic Group hf. hefur auglýst aðalfund félagsins og verður hann haldinn þann 18. apríl n.k. klukkan 16:00 í Súlnasal Radisson SAS, Hótel Sögu.