Icelandic Group hefur keypt allt hlutafé í Saltur A/S í Danmörku, sem á allt hlutafé í Jeka Fish A/S í Danmörku. Jeka Fish hefur jafnframt nýverið gengið frá kaupum á félaginu Atlantic Cod A/S.

Í fréttatilkynningu félagsins kemur fram að kaupverðið verður greitt með nýju hlutafé í Icelandic Group að nafnverði 135 milljónir króna. Eftir viðskiptin og hlutafjáraukningu í Icelandic Group munu hluthafar Saltur eiga 4,7% hlutafjár í Icelandic Group. Miðað við markaðsverð hlutabréfa Icelandic Group í lok dags 31. mars 2006 nemur kaupverð Saltur um 1.161 milljónum króna. Vaxtaberandi skuldir Saltur við kaupin eru áætlaðar um 130 milljónir danskra króna eða um 1.500 milljónum króna. Kaupverðið er háð fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar sem áætlað er að verði lokið innan tveggja vikna.

Með kaupunum haslar Icelandic Group sér völl í framleiðslu á saltfiski segir í tilkynningu félagsins. Áætluð velta Saltur samstæðunnar á árinu 2006 er um 3.500 milljónir króna. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) hefur verið um 11-12% af veltu. Afkoma félagsins sveiflast nokkuð innan ársins og er best á fyrsta og síðasta ársfjórðungi. Reikningsskil Saltur mun koma inn í Icelandic Group samstæðuna frá og með 1. apríl 2006.

Eigendur Saltur eru Sighvatur Bjarnason og Halldór Arnarson og tengdir aðilar. Halldór hefur verið framkvæmdastjóri félagsins og mun verða áfram. Sighvatur mun hverfa úr stjórn við kaupin.

Jeka Fish og dótturfélag þess, Atlantic Cod, reka tvær saltfiskvinnslur í bænum Lemvig á Jótlandi. Jeka Fish var stofnað á árið 1985 og Atlantic Cod árið 1990. Starfsmenn félaganna eru um 115 og er framleitt úr um 14.000 tonnum af hráefni árlega. Athafnasvæði félaganna liggja saman og verða þau sameinuð á árinu 2006. Markaðir félaganna eru aðallega á Ítalíu og Spáni. Velta félaganna á árinu 2006 er áætluð um 3.500 milljónir króna.

?Fjárfestingin er í samræmi við þá stefnu Icelandic Group að vera leiðandi í framleiðslu og sölu sjávarafurða í heiminum og að auka hlut framleiðslu í starfsemi félagsins. Með kaupunum hefur Icelandic Group fært sig inn á framleiðslu saltfiskafurða þar sem afkoma hefur verið góð. Jeka Fish er traust og gott fyrirtæki sem hefur skilað góðri afkomu á undanförnum árum. Kaup á öllu hlutafé í Atlantic Cod hefur styrkt félagið enn frekar. Hjá félaginu er gott starfsfólk sem Halldór Arnarson leiðir. Hann hefur mikla reynslu úr sjávarútvegi og hefur sýnt með árangri sínum í Jeka Fish að hann er hæfileikaríkur stjórnandi á þessu sviði. Með honum og hans starfsfólki hefur Icelandic Group bæst öflugur liðsauki," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandic Group í tilkynningunni.

Halldór Arnarson framkvæmdastjóri Jeka Fish:
?Það er stórt skref hjá okkur í Jeka Fish að verða hluti af Icelandic Group samstæðunni. Ég hlakka mikið til að vinna með því frábæra fólki sem er hjá Icelandic Group og er sannfærður um að samstarf okkar muni verða árangursríkt."

Um Halldór Arnarson framkvæmdastjóra Jeka Fish

Halldór hefur verið framkvæmdastjóri Jeka Fish frá ársbyrjun 2003. Hann var sölustjóri hjá SÍF á árunum 1999 ? 2002 og framleiðslustjóri hjá Vinnslustöðinni 1998 ? 1999. Hann var framkvæmdastjóri Mar Nor (síðar SÍF Norway) á árunum 1996-1998 og sölu og markaðsstjóri hjá Sölusamtökum Norskra Fiskframleiðenda á árinu 1993 ? 1996. Halldór er fæddur árið 1966 og er sjávarútvegsfræðingur frá Sjávarútvegsháskólanum í Tromsö.