Icelandic Group kynnti afkomutölur nú í vikunni sem sýna tap á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Þórólfur Árnason, forstjóri félagsins, segir í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í dag að félagið muni ná jafnvægi í rekstri á þessu ári.

Ný framkvæmdastjórn félagsins var kynnt í gær en í henni eru auk Þórólfs, Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og Ellert Vigfússon, framkvæmdastjóri framleiðslu. Þeim er ætlað að leiða félagið í gegnum samræmingu í kjölfar samruna Icelandic, Sjóvíkur og Samband of Iceland. Segir Þórólfur að þegar búið verði að ná fram samræmingaráformunum verði hægt að hefjast handa við sókn fyrirtækisins af fullum krafti.

Hann segir að Iclendic Group sé nú að fara í gegnum þriðja fasa á breytingarferli. Upphafið megi rekja til gömlu félaganna, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sjávarafurðadeildar Sambandsins. Uppstokkun og hallarbylting sem gerð hafi verið í SH árið 1999 hafi verið nauðsynleg til að hægt væri að halda áfram inn í þriðja fasann -- að breyta félaginu í alþjóðlegt fyrirtæki.