Icelandic Group hefur ákveðið að selja öll hlutabréf í VGI, sem er þjónustufyrirtæki við matvælaiðnaðinn. VGI varð til í apríl árið 2006 þegar Icelandic umbúðir, dótturfyrirtæki Icelandic Group, keypti VGÍ og sameinaðist því.

Söluverð hlutabréfanna er 270 milljónir og var bókfært verð þeirra 81,4 milljónir í lok september. Kaupandinn er Afflink Europe, sem er í eigu bandaríska fyrirtækisins Afflink og íslenskra fjárfesta. Lögfræðingar Afflink í Bandaríkjunum eru að ljúka við að fara yfir alla pappíra um þessar mundir, en samningur um söluna mun taka afturvirkt gildi 1. janúar og mun söluhagnaðurinn tekjufærast á fyrsta ársfjórðingi þessa árs.

Björgólfur Jóhannssson, forstjóri Icelandic Group, segir ástæðuna fyrir sölunni vera þá að starfsemi VGI sé utan kjarnastarfsemi Icelandic Group. "Við ætlum að beina kröftum okkar að því sem við erum bestir í. VGI hefur séð um umbúðirnar fyrir okkur. Það hefur stækkað töluvert á síðasta ári og við höfum metið svo að það rammist ekki innan okkar stefnu," segir hann.

Aðspurður um kaup Icelandic umbúða á VGÍ síðasta vor segir Björgólfur að fyrirtækið hafi verið eflt með sameiningunni, en á þeim tíma hafi þá þegar hafi hugmyndir verið uppi um að selja fyrirtækið. "Horft var til þess að búa til betri söluvöru. Það lá alltaf fyrir að við værum tilbúin að selja það þegar tækifæri byðist," segir hann.

VGI hefur gengið ágætlega að sögn Björgólfar. "Síðasta ár markast af sameiningarkosnaði, en töluvert mikil samlegð var af sameiningunni, sem kom fram á seinni hluta síðasta árs og mun koma fram á þessu ári," segir hann.

Valdimar Sigurðsson, forsvarsmaður Afflink á Íslandi, vildi ekki á þessu stigi gefa upp hvaða íslensku fjárfestar ættu Afflink Europe ásamt Afflink, það er að segja á meðan enn sé verið að ganga frá formsatriðum.

Valdimar segir að kaupin á VGI sé fyrsta skref Afflink í því að færa út kvíarnar til Evrópu. Aðspurður segir Valdimar að ákveðnar þreifingar séu um umsvif Afflink í fleiri Evrópulöndum. "Það á að stílfæra Afflink hugmyndafræðina hér á landi, sem sagt að sníða af vankantana fyrir Evrópumarkaðinn. Þó að bandaríski markaðurinn sé líkur þeim evrópska þá er hann ekki eins og það á að aðlaga Afflink hugmyndafræðina nýjum aðstæðum. Hugmyndafræðin verður þannig slípuð hér á landi, þar sem markaðurinn er lítill og nettur, áður en haldið er í víking," segir hann.

Að sögn Valdimars verða hins vegar engar mannabreytingar í kjölfar eigendaskiptanna.