*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 12. desember 2016 12:47

Icelandic Group selur Ný-Fisk

Icelandic Group selur dótturfélag sitt til Nesfisks, en bæði eru þau með starfsemi í Sandgerði.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Icelandic Group hefur komist að samkomulagi um sölu á dótturfélagi sínu, Ný-Fiskur, til Nesfisks ehf að því er fram kemur í frétt frá framtakssjóði Íslands, sem er fjárfestingarsjóður í eigu sextán lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS og á Icelandic Group að fullu

„Vörumerki félagsins ´Icelandic Seafood´ fylgir ekki með í kaupunum.

Einföldun á rekstri

Salan á Ný-Fisk er liður í stefnu Framtakssjóðs Íslands, sem á Icelandic Group að fullu, að einfalda rekstur félagsins en nýlega seldi Framtakssjóðurinn dótturfélag sitt á Spáni til framleiðanda á Íslandi,“ segir í fréttinni.

„Nesfiskur hefur undanfarin 30 ár verið með meginstarfsemi sína í Garði en einnig rekið frystingu og ferskfiskvinnslu í Sandgerði. Hefur félagið lýst yfir áhuga á að halda rekstri Ný-Fisks áfram í Sandgerði.

Ný-Fiskur sérhæfir sig í vinnslu og sölu á ferskum sjávarafurðum. Félagið nýtir um 6.000 tonn af hráefni árlega og eru tekjur fyrir árið 2016 áætlaðar um 3.000 m.kr. Stór hluti afurða er fluttur með flugi til viðskiptavina í Belgíu og annarra Evrópulanda.

Ný-Fiskur rekur vel útbúna vinnslu í Sandgerði ásamt því að gera út línubátinn Von GK-113 í gegnum dótturfélag sitt, Útgerðarfélag Sandgerðis, sem er með um 800 þorskígildistonn af aflaheimildum í krókaaflamarkskerfinu.“

Um 70 manns starfa hjá félaginu

Starfa um 70 manns hjá félaginu og framkvæmdastjóri þess er Þorsteinn Magnússon.

„Undanfarin ár hafa verið viðburðarík í rekstri Ný-Fisks en mikil áhersla hefur verið lögð á endurskipulagningu ýmissa þátta í rekstrinum, segir Herdís Dröfn Fjeldsted, Stjórnarformaður Icelandic Group og framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands. 

„Við teljum horfurnar fyrir Ný-Fisk góðar og erum stolt að afhenda nýjum eigendum stöndugt félag í góðum rekstri. Þá erum við ánægð með þær fyrirætlanir nýrra eigenda, að rekstri félagsins verði haldið áfram í heimabæ þess, Sandgerði.“

Eigandi Icelandic og Icelandic Seafood vörumerkjanna

Icelandic Group er eignarhaldsfélag og heldur það utan um dótturfyrirtæki félagsins í Bretlandi, Belgíu, og Íslandi sem öll sérhæfa sig í framleiðslu og sölu á sjávarfangi.

„Icelandic Group er einnig móðurfélag ITH (Icelandic Trademark Holding) sem er eigandi vörumerkjanna ´Icelandic´ og ´Icelandic Seafood´ og heldur utan um alla markaðssetningu vörumerkjanna og þjónustu gagnvart leyfishöfum og öðrum framleiðendum á Íslandi,“ að því er fram kemur í fréttatilkynningunni.

„Í Bandaríkjunum er Icelandic Group í samstarfi við Highliner Foods sem er leyfishafi og selur vörur undir vörumerkinu ´Icelandic Seafood´ inn á hótel og veitingahúsamarkað.“