*

sunnudagur, 8. desember 2019
Innlent 18. október 2017 08:18

Icelandic Group selur Seachill

Fengu 12 milljarða fyrir félag sem notaði lítið íslenskt hráefni. Samlegðaráhrif sögð lítil milli dótturfélaga Icelandic Group.

Ritstjórn
Herdís Dröfn Fjeldsted er stjórnarformaður Icelandic Group og framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, eigenda fyrirtækisins.
Aðsend mynd

Icelandic Group hefur undirritað samning um sölu á Seachill, dótturfélagi sínu í Bretlandi. Kaupandi er breska matvælafyrirtækið Hilton Food Group. Heildarvirði Seachill í viðskiptunum nemur um 12 milljörðum króna, eða 84 milljónir breskra punda. Ráðgert er að félagið verði afhent nýjum eiganda þann 7. nóvember 2017.

Söluferlið á Seachill var auglýst í apríl síðastliðnum. Mikill áhugi var á félaginu þar sem fjölmargir alþjóðlegir aðilar tóku þátt í ferlinu og lýstu yfir vilja til kaupanna. Niðurstaða ferlisins var að ganga til samninga við Hilton. Umsjón með söluferlinu og ráðgjöf til seljanda var í höndum Oghma Partners og Íslandsbanka. Logos veitti seljanda lögfræðiráðgjöf í tengslum við viðskiptin.

Nánast engin samlegðaráhrif

Herdís Dröfn Fjeldsted stjórnarformaður Icelandic Group og framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands segir ánægjulegt að afrakstur sölunnar skila sér beint til eigenda félagsins sem eru að meiri hluta íslenskir lífeyrissjóðir.

„Með sölunni á Seachill er stórum áfanga náð í þeirri vegferð sem hófst árið 2015 þegar stefnan var tekin að selja Icelandic Group í einingum frekar en í heilu lagi. Samstarf og samlegðaráhrif milli félaga samstæðunnar var nánast engin,“ segir Herdís Dröfn.

„Með þessari ákvörðun tókst að auka virði seldra eininga umtalsvert og nemur söluandvirðið alls um 20 milljörðum króna.“ Salan á Seachill kemur í kjölfar sölu Icelandic Group á öðrum helstu dótturfélögum samstæðunnar. Á síðustu 18 mánuðum hefur Icelandic þannig gengið frá sölu á Gadus í Belgíu, Ný-Fiski í Sandgerði, Ibérica á Spáni og Icelandic í Asíu. 

Önnur félög keypt af íslenskum sjávútvegsfyrritækjum

Kaupendur að þeim síðarnefndu voru allt íslensk félög sem tengjast framleiðslu og sölu í sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti. Eftir þessa sölu stendur eftir félagið Icelandic Trademark Holding, eigandi vörumerkjanna Icelandic og Icelandic Seafood, í eigu Icelandic Group. Icelandic Trademark Holding heldur utan um markaðssetningu vörumerkjanna ásamt þjónustu gagnvart leyfishöfum og öðrum framleiðendum á Íslandi.

Fleiri samstarfsaðilar munu bætast í hópinn á komandi mánuðum en áhersla er lögð á að auka útflutning og efla hróður og ímynd hágæða íslenskra sjávarafurða og tengdra vara á alþjóðlegum vettvangi. Framtakssjóður Íslands hefur greitt alls um 75 milljarða króna til hluthafa samanborið við innborgað hlutafé upp á 43 milljarða króna. Eftirstandandi fjárfestingar sjóðsins, þar með taldar peningalegar eignir, eru metnar á 15 milljarða króna. Ársávöxtun sjóðsins reiknuð til dagsins í dag nemur 23% á ári,

Um Seachill:

Seachill er umfangsmikill framleiðandi á kældum og frosnum sjávarafurðum sem og tilbúnum sjávarréttum til stórra smásölukeðja í Bretlandi.  Seachill á einnig vörumerkið ‚The Saucy Fish Co.‘ sem hefur verið byggt upp á breska neytandamarkaðinum og í fleiri löndum.

Tekjur Seachill árið 2016 námu um 37 milljörðum króna og starfsmenn eru um 750 talsins. Félagið verður rekið sem sjálfstæð eining hjá Hilton eftir viðskiptin og munu stjórnendur Seachill og aðrir lykilstarfsmenn halda áfram störfum fyrir félagið.
Óverulegt magn af íslenskum fiski er selt í gegnum verksmiðjur Seachill eða einungis um 5% alls af heildarhráefni félagsins.