Eins og áður hefur komið fram hefur Icelandic Group keypt frystisvið Delpierre í Wimille (áður SIF France). Í gær tók Pickenpack Gelmer S.A.S, dótturfélag Icelandic Group, yfir rekstur verksmiðjunnar og er öllum fyrirvörum vegna kaupanna aflétt. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Um er að ræða kaupsamning er varðar verksmiðjuhús, tæki og áhöld, veltufjármuni auk viðskiptasambanda. Heildarkaupverð er um 17 milljónir evra. Icelandic Group yfirtekur jafnframt samninga við starfsfólk verksmiðjunnar, en í verksmiðjunni starfa um 300 manns.

Velta frystisviðs Delpierre var um 50 milljónir evra á síðastliðnu rekstrarári og framleidd voru um 17.000 tonn af afurðum sem aðallega hafa verið seldar á Frakklandsmarkaði. Verksmiðjan var tekin í notkun árið 1995 og endurbætt árið 2002.

Kaupin á verksmiðjunni eru liður í uppstokkun á verksmiðjurekstri Icelandic Group í Evrópu. Framleiðsla á frosnum afurðum verður flutt frá Coldwater UK í Grimsby sem hér eftir mun sérhæfa sig í framleiðslu kældra rétta. Verksmiðjur Icelandic Group í Þýskalandi og Frakklandi munu sjá um framleiðslu frosinna fiskafurða og í verksmiðjunni í Frakklandi eykst framleiðslan úr 17.000 í 26.000 tonn í fyrsta áfanga. Í heild munu verksmiðjur Icelandic Europe framleiða yfir 100.000 tonn af frystum afurðum.