Stjórnendur Framtakssjóðs Íslands eru sagðir í viðræðum við Finnboga Baldvinsson og hóp fjárfesta að baki honum um möguleg kaup á sjávarútvegsfyrirtækinu Icelandic Group samkvæmt frétt IntraFish. Talað er um að söluferlið sé lokað og í frétt frá 10. desember staðfestir Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins, að verið sé að ræða við eitt fyrirtæki um aðkomu að Icelandic.

Fjárfestarnir munu mögulega kaupa verulegan hluta eða allt fyrirtækið fyrir um 320 milljónir evra sem jafngildir rúmlega 49 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi evrunnar í dag að því er segir á IntraFish. Gangi það eftir hagnast Framtakssjóðurinn verulega á viðskiptununum en fram kemur að hann gæti hagnast meira á því að standa öðruvísi að sölunni eða jafnvel skrá fyrirtæki á markað.

Var forstjóri fyrir hrun

Finnbogi Baldvinsson er forstjóri Icelandic og hefur verið frá því fyrir hrun, á meðan Vestia hélt á félaginu eftir hrun og eftir að Framtakssjóðurinn keypti félagið og tók yfir formlega 1. desember síðastliðinn. Þess má geta að Finnbogi Jónsson og Finnbogi Baldvinsson eru frændur.

Í frétt IntraFish segir að með Finnboga Baldvinssyni sé þýskur fjárfestingasjóður, Triton Partners, sem er með aðsetur í Hamborg, Bretlandi, Svíþjóð og Lúxemborg. Þá kemur fram að tilboði frá kínversku sjávarútvegsfyrirtæki, Pacific Andes Holdings International,  hafi verið hafnað fyrr á árinu samkvæmt IntraFish.

Ekki náðist í Finnboga Jónsson við vinnslu fréttarinnar.