Uppgjör Icelandic Group [ IG ] fyrir fjórða ársfjórðung 2007 var langt undir spám greiningadeildanna.

Félagið tapaði 29 milljónum evra á fjórðungnum en meðaltalsspá greiningardeildanna hljóðaði upp á þrjár milljónir evra.

EBITDA Icelandic var 1,4 milljónir evra en meðaltalsspá var 10 milljónir evra.

Tekjur fjórðungsins námu 328 milljónum evra en meðaltalspá hljóðaði upp á 352 milljónir evra.

„Tapið má að hluta rekja til slakrar afkoma Icelandic USA og Pickenpack í Frakklandi," segir greiningardeild Glitnis.

Erfitt ár að baki

„Árið 2007 var Icelandic Group afar erfitt og þar af var fjórði ársfjórðungurinn með slökustu afkomuna," segir Finnbogi Baldvinsson forstjóri Icelandic Group í fréttatilkynningu.

„Það hagræðingarferli sem félagið hefur margkynnt að sé í gangi hefur dregist og voru upphafleg markmið um endurskipulagningu félagsins óraunhæf. Einföldun á flóknum rekstri félagsins með fækkun verksmiðja og söluskrifstofa er vel á veg komin. Aðgerðirnar hafa gert okkur kleift að setja rekstrareiningunum skýrari markmið og er árangur þessarar vinnu farinn að koma í ljós. Félagið er nú vel í stakk búið til að takast á við hlutverk sitt sem leiðandi matvælaframleiðandi í sjávarafurðum.”