Stjórn Icelandic Group [ IG ] mun leggja fyrir aðalfund félagsins tillögu um 30 milljóna evra (3,3 milljarðar króna) hlutafjáraukningu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Finnbogi Baldvinsson, forstjóri Icelandic Group, segir það fela í sér sterk skilaboð til markaðarins. „Með þessu er stjórn félagsins að sýna með áþreifanlegum hætti að hún stendur heilshugar á bak við þau áform sem uppi eru um einföldun á rekstri félagsins. Þetta er líka traustsyfirlýsing á þau markmið sem sett hafa verið fram um hagnað af rekstri á árinu 2009," segir hann í fréttatilkynningunni.

Eiginfjárhlutfall í árslok var komið niður í 16,6%, segir greiningardeild Glitnis, og vaxtaberandi skuldir námu 515 milljónum evra í árslok. „Reksturinn þarf að batna umtalsvert mikið til þess að fjárfestar sýni félaginu áhuga," segir greiningardeildin.