Tap Icelandic Group [ IG ] á fyrsta ársfjórðungs nam 7,3 milljónum evra samanborið við 2,3 milljón evra hagnað á sama tímabili síðasta árs.

Hagnaður fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) á fjórðungnum nam 11,9 milljónum evra samanborið við 14,2 milljónum evra á sama tímabili síðasta árs.

Vörusala fjórðungsins nam 321,1 milljónum evra samanborið við 385,2 milljónir evra á sama tímabili síðasta árs. Lækkun nemur 16,6%. Helstu ástæður samdráttarins eru styrking evru gagnvart öðrum gjaldmiðlum, aflögð starfsemi í OTO, ásamt almennt minni sölu á mörkuðum félagsins vegna efnahagssamdráttar.

Hrein fjármagnsgjöld í fjórðungnum námu 15,2 milljónum evra samanborið við 5,9 milljónir evra á sama tímabili ársins 2007. Gengistap í fjórðungnum nam 7,5 milljónum evra samanborið við 0,1 milljón evra á sama tímabili síðasta árs. Tekjufærður tekjuskattur í rekstrarreikningi nemur 0,6 milljónum evra sem samsvarar 7,4% tekjuskatti.

Jákvætt er að birgðastaða Icelandic Group er að lækka, en félagið hefur um nokkurt skeið barist við of mikla birgðastöðu. Birgðir voru 198,8 milljónir evra samanborið við 242,5 milljónir í árslok 2007

Eiginfjárhlutfallið er 16,1% samanborið við 16,6% í árslok 2007.

„Rekstur Icelandic Group hf. var samkvæmt áætlun á fyrsta ársfjórðungi,“ segir Finnbogi A. Baldvinsson forstjóri Icelandic Group í tilkynningu. „Það eru vissulega jákvæð teikn, en á móti kemur frávik sem eru fjármagnsliðirnir. Félagið er að vinna á mörgum mörkuðum og gengisþróun hefur mikil áhrif á félagið. Gengistap á ársfjórðungnum nam sjö og hálfri milljón evra en var á sama tíma í fyrra 55 þúsund evrur. Á móti kemur að vaxtaberandi skuldir samstæðunnar lækka um 37 milljónir evra sem er að hluta til vegna styrkingar evrunnar. Við höfum náð að lækka rekstrarkostnað samsteypunnar umtalsvert eða um 17% þegar bornir eru saman fyrstu ársfjórðungar í fyrra og í ár.“