*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 2. júlí 2020 14:32

Icelandic til Íslandsstofu

Íslandsstofa mun fara með umsjón með vörumerkjunum ICELANDIC og ICELANDIC SEAFOOD frá og með 1. júlí.

Ritstjórn

Íslandsstofa mun fara með umsjón með vörumerkjunum ICELANDIC og ICELANDIC SEAFOOD frá og með 1. júlí í samræmi við ákvörðun sem tekin var þegar Framtakssjóður Íslands afhenti ríkissjóði vörumerkin árið 2018 til varðveislu og nýtingar í þágu íslensku þjóðarinnar. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu. 

Samkvæmt samkomulaginu mun Íslandsstofa hafa umsjón með vörumerkjunum, þar með talið ábyrgð á kynningu og umsjón með lögformlegri verndun vörumerkjanna. Samningar eru í gildi um notkun vörumerkisins fyrir íslenskar sjávarafurðir sem seldar eru af High Liner Foods í N-Ameríku og Ibérica og Iceland Seafood í Suður-Evrópu. Fjölmörg tækifæri eru til frekari nýtingar vörumerkjanna, en þau hafa sterka stöðu eftir áratuga markaðsstarf útflytjenda og seljenda á erlendum mörkuðum.

Samkomulag við dótturfélög Brims í Asíu um sölu undir merkjum ICELANDIC

Gengið hefur verið frá rammasamningi við íslensk dótturfélög Brims í Asíu sem starfa í Japan, Hong Kong og Kína. Þessi félög hafa gengið undir nafninu Icelandic og hyggjast nýta vörumerkin ICELANDIC við sölu og markaðssetningu hágæða sjávarafurða sem framleiddar verða úr íslensku hráefni í samstarfi við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki.

Samkomulag um sölu á fiskolíum í Bandaríkjunum.

Þá hefur einnig nýlega verið gengið frá samningi við dreifingaraðilann Greenwood Group í Bandaríkjunum um sölu á fiskolíum undir nafninu Icelandic Wild Fish Oil. Salan á þeim er hafin á Amazon og dreifing er hafin til smásöluaðila. Framleiðandi olíanna er SagaNatura. Nánari útfærsla samstarfs aðila er háð undirritun endanlegs samnings.

Þorkell Sigurlaugsson stjórnarformaður Icelandic:

„Sterk vörumerki skipta vaxandi máli í alþjóðlegri markaðssetningu. Árangursríkir samningar um notkun Icelandic vörumerkisins hafa legið fyrir um árabil við High Liner Foods í Norður Ameríku. Iceland Seafood og Ibérica á Spáni og S-Evrópu nýta einnig vörumerkið. Vörumerkið hefur nýst vel á mörkuðum í Norður Ameríku og Suður Evrópu, en á þó enn talsvert inni. Sala á fiskolíu í neytendaumbúðum til verslana undir merkjum ICELANDIC og sala á sjávarfangi í Asíu undir merkjum ICELANDIC eru merk tímamót.