Íslandsstofa mun fara með umsjón með vörumerkjunum ICELANDIC og ICELANDIC SEAFOOD frá og með 1. júlí í samræmi við ákvörðun sem tekin var þegar Framtakssjóður Íslands afhenti ríkissjóði vörumerkin árið 2018 til varðveislu og nýtingar í þágu íslensku þjóðarinnar. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Samkvæmt samkomulaginu mun Íslandsstofa hafa umsjón með vörumerkjunum, þar með talið ábyrgð á kynningu og umsjón með lögformlegri verndun vörumerkjanna. Samningar eru í gildi um notkun vörumerkisins fyrir íslenskar sjávarafurðir sem seldar eru af High Liner Foods í N-Ameríku og Ibérica og Iceland Seafood í Suður-Evrópu. Fjölmörg tækifæri eru til frekari nýtingar vörumerkjanna, en þau hafa sterka stöðu eftir áratuga markaðsstarf útflytjenda og seljenda á erlendum mörkuðum.

Samkomulag við dótturfélög Brims í Asíu um sölu undir merkjum ICELANDIC

Gengið hefur verið frá rammasamningi við íslensk dótturfélög Brims í Asíu sem starfa í Japan, Hong Kong og Kína. Þessi félög hafa gengið undir nafninu Icelandic og hyggjast nýta vörumerkin ICELANDIC við sölu og markaðssetningu hágæða sjávarafurða sem framleiddar verða úr íslensku hráefni í samstarfi við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki.

Samkomulag um sölu á fiskolíum í Bandaríkjunum.

Þá hefur einnig nýlega verið gengið frá samningi við dreifingaraðilann Greenwood Group í Bandaríkjunum um sölu á fiskolíum undir nafninu Icelandic Wild Fish Oil. Salan á þeim er hafin á Amazon og dreifing er hafin til smásöluaðila. Framleiðandi olíanna er SagaNatura. Nánari útfærsla samstarfs aðila er háð undirritun endanlegs samnings.

Þorkell Sigurlaugsson stjórnarformaður Icelandic:

„Sterk vörumerki skipta vaxandi máli í alþjóðlegri markaðssetningu. Árangursríkir samningar um notkun Icelandic vörumerkisins hafa legið fyrir um árabil við High Liner Foods í Norður Ameríku. Iceland Seafood og Ibérica á Spáni og S-Evrópu nýta einnig vörumerkið. Vörumerkið hefur nýst vel á mörkuðum í Norður Ameríku og Suður Evrópu, en á þó enn talsvert inni. Sala á fiskolíu í neytendaumbúðum til verslana undir merkjum ICELANDIC og sala á sjávarfangi í Asíu undir merkjum ICELANDIC eru merk tímamót.