Ferðaritið Icelandic Times, sem gefið hefur verið út á þremur tungumálum ensku, frönsku og þýsku, mun nú í haust vera gefið út á kínversku. Þetta kemur fram í frétt á vef landogsaga.is .

Blaðið verður skrifað á mandarin kínversku sem er opinbert mál í Kína og jafnframt útbreiddasta mállýska landsins. Efni blaðsins verður unnið alfarið hér landi en verður svo þýtt og staðfært af sérfræðingum og kínverskumælandi starfsfólki Icelandic Times.

Edda Snorradóttir, verkefnastjóri Icelandic Times, segist aðspurð um hvers vegna ákveðið hafi verið að leggjast í slíka útgáfu að kínverski markaðurinn sé afar spennandi, ekki síst sökum stærðar og þeirra möguleika sem í honum felist. Hún segir það fyrirséð að ferðalög Kínverja erlendis munu halda áfram að aukast og að þau vilji að Ísland tryggi sér sess í hugum kínverskra ferðalanga sem spennandi valmöguleiki. Hluti af íslenskri landkynningu sé að veita upplýsingar á þeirra eigin tungumáli um staðhætti og þjónustu sem í boði er á landinu.

Fyrsta kínverska blað Icelandic Times mun líta dagsins ljós þann 1. október næstkomandi, á þjóðhátíðardegi Kínverja.