Finnbogi Baldvinsson, forstjóri Icelandic Group, sagði á afkomukynningu í morgun að unnið hefði verið að því á fyrsta fjórðungi ársins að minnka efnahagsreikning félagsins verulega; lækka birgðir og skuldir. Hann sagði að félagið teldi sig hafa staðið sig þokkalega í þessari vinnu á fjórðungnum, en það hefur sótt um afskráningu til Kauphallar Íslands. Hann sagði að Icelandic uppfyllti öll skilyrði til afskráningar og að nú stæði á Kauphöllinni að framkvæma hana.

Finnbogi sagði að á næstu dögum lyki vinnu við að taka breytanlegt lán upp á 41 milljón evra, en félagið er afar skuldsett miðað við afkomu. Verkefnið væri að leysa úr þessari skuldsetningu á næstunni. Fé frá rekstri færi allt í að greiða niður skuldir. Tap varð á rekstri félagsins upp á 7,3 milljónir evra á fjórðungnum, en EBITDA hlutfall jókst úr 2% upp á 3,7% frá sama tíma í fyrra.

Kostnaður lækkaði um 17% á milli ára og sagði Finnbogi að það væri jákvæð þróun. Sölu- og markaðsfyrirtæki félagsins hefðu sýnt aukna framlegð, þrátt fyrir minni sölu. Markmiðið væri að viðhalda þessum rekstrarárangri.