Vatnsfyrirtækið Icelandic Water Holdings og umbúðaframleiðandinn Oddi hafa endurnýjað samstarf sitt, en Oddi framleiðir meðal annars umbúðir sem IWH notar undir drykkjarflöskur.

Haft er eftir Tryggva Harðarsyni, verksmiðjustjóra hjá Icelandic Water Holdings, í tilkynningu að Oddi hafi árum saman veitt fyrirtækinu fyrsta flokks þjónustu með umbúðir undir drykkjarflöskur. „Við erum mjög ánægð með umhverfisvænt vöruúrvalið, enda kemur hráefnið í pappírsumbúðir Odda allt úr norrænum nytjaskógum," segir hann.

Stærsta vörumerki Icelandic Water Holdings er vatnið Icelandic Glacial, sem kemur úr uppsprettulindum í Ölfusi. Aðaleigendur fyrirtækisins eru feðgarnir Jón Ólafsson og Kristján Jónsson, ásamt alþjóðlega drykkjarvörufyrirtækinu Anheuser-Busch, sem meðal annars framleiðir Budweiser-bjórinn.