Félagið Icelease tilkynnti á flugsýningunni í Dubai í vikunni að það hefði gert samning við Boeing um breytingu á ellefu Boeing 737-800 flugvélum - úr farþegavélum í fraktvélar - í samstarfi við fjárfestingarsjóðinn Corrum Capital. Haft var eftir Magnúsi Stephensen, meðeiganda og framkvæmdastjóra viðskiptasviðs Icelease, að uppgangur í netverslun í heimsfaraldrinum hefði aukið verulega eftirspurn eftir fraktflugi.

Samstarf við Corrum Capital

Í fyrra keypti Icelease þrjár 757-200 flugvélar af Icelandair ásamt bandaríska fjárfestingarsjóðnum Corrum Capital. Kári Kárason, meðeigandi og framkvæmdastjóri félagsins, segir að í ljósi smæðar sinnar á markaði geri þeir svona viðskipti í samstarfi við aðra. „Við erum minnihlutaeigendur í félagi sem leigir tvær af þessum vélum út en þriðja vélin var seld. Þessum vélum var síðan breytt úr farþegavélum í fraktvélar af Boeing."

Icelease og Corrum Capital ákváðu að halda samstarfi sínu áfram í sameiginlega félaginu Carolus Cargo Leasing og hafa nú gengið frá samningum við Boeing um að breyta ellefu 737-800 flugvélum í fraktvélar.

Kári segir kostnaðinn við að breyta einni farþegavél í fraktvél nema rúmum 500 milljónum króna. Þetta er því gríðarlega umfangsmikil fjárfesting sem Carolus Cargo Leasing er að ráðast í.

Boeing mæta eftirspurn eftir fraktvélum

Í vikunni tilkynnti Boeing að Icelease yrði fyrsti viðskiptavinur þeirra á nýrri starfsstöð þeirra á Gatwick flugvelli í Bretlandi, en sú stöð er gagngert hugsuð fyrir flugvélar sem á að breyta í fraktvélar. Boeing hyggst síðan opna tvær aðrar sambærilegar stöðvar í Kanada árið 2023. Þetta gerir Boeing til að svara þeirri auknu eftirspurn sem fyrirtækið gerir ráð fyrir að verði eftir breytingum á flugvélum, en það gerir ráð fyrir að breyta 1.720 flugvélum á næstu 20 árum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Baltsar Kormákur segir umsvif íslenskrar kvikmyndagerðar geta margfaldast á næstu árum.
  • Fjallað er um metnaðarfull vaxtaráform Kerecis.
  • Sagt er frá milljarða arðgreiðslu Novator vegna sölunnar á Nova.
  • Rætt við stjórnendur fasteignaþróunarfélagsins Klasa um uppbygginu á Borgarhöfða.
  • Sagt er frá kaupum Frumtaks á Arctic Trucks á Íslandi til að bjarga félaginu frá gjaldþroti.
  • Fjallað um matsmál sem Lyf og heilsa hafa höfðað gegn Samkeppniseftirlitinu og ríkinu.
  • Rætt er við framkvæmdastjóra Almannaróms um vinnustaðakeppnina Reddum málinu.
  • Óðinn fjallar um sögð og ósögð orð Peningamála Seðlabankans.
  • Týr fjallar um myndun nýrrar ríkisstjórnar.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.