Gengið hefur verið frá kaupum Icepharma hf. á öllu hlutafé í Yggdrasil ehf. Seljendur eru Auður I fagfjárfestasjóður og Eignarhaldsfélagið Lifandi ehf. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icepharma.

„Starfsemi Yggdrasils fellur vel að starfsemi Icepharma enda höfum við trú á því að aukin áhersla verði á heilbrigðan lífsstíl á næstu árum og þá ekki síst með áherslu á þær fæðutegundir sem við neytum. Hjá Yggdrasil hefur verið unnið mikið brautryðjendastarf sem við eigum eftir að njóta góðs af“ segir Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma í tilkynningunni.

Yggdrasill ehf. er heildsölufyrirtæki í innflutningi og sölu á lífrænum vörum og heilsuvörum. Icepharma sérhæfir sig í innflutningi á lyfjum, tækjum og búnaði fyrir heilbrigðiskerfið auk innflutnings á heilsu- og íþróttavörum.