Rekstrarfélag Kaupþings banka hefur tekið ákvörðun um að slíta ICEQ verðbréfasjóði.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en ICEQ verðbréfasjóðurinn er vísitölusjóður sem byggir á gengi hlutabréfa í OMXI6 vísitölunni í Kauphöllinni.

Fram kemur að rekstrarfélagið mun óska eftir því við Kauphöllina að hlutdeildarskírteini sjóðsins verði tekin úr viðskiptum eins fljótt og mögulegt er. Þá hefur rekstrarfélagið einnig sagt upp viðskiptavakt Nýja Kaupþings banka með hlutdeildarskírteini sjóðsins frá og með deginum í dag.

Eins og fram kom nýlega hefur Alfesca óskað eftir afskráningu úr Kauphöllinni. Þá mun Bakkavör Group einnig óska eftir afskráningu á næstunni.

Sigþór Jónsson, sjóðsstjóri Rekstrarfélags Kaupþings segir í samtali við viðskiptablaðið að slit sjóðsins sé í raun afleiðing af fækkun félaga í Kauphöllinni.

„Hann endurspeglar ástandið á íslenskum hlutabréfamarkaði í dag,“ segir Sigþór.