Allt útlit er fyrir að ný og breytt staða í Icesave-málinu muni bjarga ráðherrastólum Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, og í leiðinni Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku er mikill vilji hjá forystumönnum ríkisstjórnarinnar, þeim Jóhönnu Sigurðardóttur for- sætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra, að losna við þá Árna Pál og Jón úr ríkisstjórn. Óvild Steingríms J. í garð Árna Páls nær langt aftur í tímann og samstarf þeirra í ríkisstjórn hefur verið afar stirt.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Steingrímur vilji taka málið aftur inn á sitt borð og inn í fjármálaráðuneytið. Hins vegar sé lítill vilji til þess á þinginu að setja málið aftur í hendur Steingríms J. að undanskildum hörðustu stuðningsmönnum hans innan eigin þingflokks.

Þetta mun jafnframt leiða til þess að enn erfiðara verður fyrir þau Steingrím og Jóhönnu að bola Árna Páli út úr ríkisstjórninni.

Nánar um Icesave-málið og ráðherrakapalinn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð.